Home Fréttir Í fréttum Sex milljarða lúxushótel við Bláa Lónið opnar 2017

Sex milljarða lúxushótel við Bláa Lónið opnar 2017

249
0
Bláa lónið. teikning af svæðinu

Lónið tvöfaldast að stærð. 150 starfsmenn vinna við hótelbygginguna og 100 ný störf verða til eftir opnun.

Bláa Lónið og Jáverk hafa undirritað verksamning vegna stækkunar upplifunarsvæðis Bláa Lónsins og byggingar lúxus hótels. Samningurinn hljóðar upp á 3,4 milljarða króna en samtals er heildarkostnaðurinn vegna framkvæmdanna um 6 milljarðar. Mannvirki Bláa Lónsins munu tvöfaldast að stærð. Hundrað ný störf verða til og verða því um 400 eftir opnunina sem gert er ráð fyrir í upphafi árs 2017. Á framkvæmdatíma, sem áætlað er að verði tvö ár, munu 150 starfsmenn starfa við verkefnið.

<>

Endurhönnun og stækkun núverandi lónssvæðis er mikilvægur hluti verkefnisins. Þá verður  nýtt spa upplifunarsvæði byggt inn í hraunið vestur af núverandi lóni og mun það tengja núverandi lón og nýtt lúxushótel . Með tilkomu hótelsins verður fyrsta flokks gisting hluti af  upplifun Bláa Lónsins.  Í hótelinu er gert ráð fyrir 60 herbergjum, fundarsal og veitingastað. Stækkun og endurhönnun núverandi upplifunarsvæðis er mikilvægur þáttur uppbyggingarinnar, en lónið sjálft verður stækkað um helming.  Ný og glæsileg aðstaða fyrir spa meðferðir sem boðið er upp á ofaní lóninu er hluti stækkunarinnar.  Verkefnið er í takt við þróun Bláa Lónsins undanfarin ár þar sem jafnt og þétt hefur verið unnið að því að auka úrval og gæði þjónustu.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, sagði við þetta tækifæri að það væri ánægjulegt að ganga til samninga við Jáverk. „Fyrirtækið er þekkt fyrir vönduð og góð vinnubrögð. Við hlökkum  til samstarfs við Jáverk við það metnaðarfulla uppbyggingarverkefni sem við höfum nú  hafið.“
Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverk, sagði við undirritunina að mannvirki og hönnun Bláa Lónsins væri þekkt fyrir samspil hins manngerða og náttúrulega umhverfis. „Hinar nýju byggingar verða engin undantekning.  Verkefnið er því í senn spennandi og mikil áskorun.“

Eitt hundrað ný störf í ferðaþjónustu

Gert er ráð fyrir 100 nýjum störfum í tengslum við stækkun upplifunarsvæðis Bláa Lónsins og mun hluti starfsfólks hefja störf á framkvæmdatíma. Störfin verða fjölbreytt, en eins og önnur störf hjá fyrirtækinu munu þau miða að því að veita gestum Bláa Lónsins góða og fágaða þjónustu. Hluti starfanna sem verða til við stækkunina munu kalla á háskólamenntað fólk og starfsmenn með   sérþekkingu á sviði heilsu og vellíðunar.  Hjá Bláa Lóninu starfa um 300 starfsmenn á ársgrunni. Að framkvæmdum loknum er gert ráð fyrir því að heildarstarfsmannafjöldi verði 400.

Heimild: Víkurfréttir.is