Home Fréttir Í fréttum Grillið og Súlnasalur í endurnýjun lífdaga

Grillið og Súlnasalur í endurnýjun lífdaga

65
0
Mynd: RÚV – Ragnar Visage

Stefnt er að því að Háskóli Íslands flytji inn í Sögu, sem áður hét Hótel Saga, í haust. Grillið og Súlnasalurinn ganga í gagngera endurnýjun.

<>

Þótt sögu Hótel Sögu sé lokið er ný Saga hafin því það er nafnið á húsinu sem Háskóli Íslands keypti. Félagsstofnun stúdenta keypti það sem út af stóð, innan við 30%, og rekur stúdentaíbúðir í norðurálmunni.

Grillið á efstu hæð var annálaður veitingastaður og þar voru haldnar miklar og eftirminnilegar veislur. Það er ekki margt sem minnir á það núna.

„Nei, það þurfti að endurbyggja Grillið. Þetta var forskalað timbur hérna og ekki vel farið, en við ákváðum að byggja það upp á nýtt vegna þess að þetta er sögufrægur staður og eitt af því sem Háskóli Íslands sagði þegar við fengum bygginguna til okkar að við myndum virða sögu hennar,“ segir Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands.

„Þetta var ákaflega ánæguleg máltíð, við getum vel hugsað okkur að koma aftur“.

Þeir sem komu í Grillið muna eflaust eftir loftinu himinbláa með gylltum hnöttum og stjörnum. Sá næturhiminn mun blasa við að nýju.

„Já, það verður þannig. Nú er reyndar eldhúsið farið en Grillið verður uppbyggt að nýju eins og það var áður, eftir því sem kostur er.“

Ein eftirminnilegasta sena íslenskra kvikmynda er í Englum alheimsins, þegar þrír sjúklingar af Kleppi gera vel við sig á Grillinu en geta ekki greitt reikninginn. Viktor, sem Björn Jörundur Friðbjörnsson lék, lét sér ekki bregða þegar þjónninn sagði við hann að bréfmiði sem Viktor hafði rétt honum væri ekki ávísun.

„Við erum allir vistmenn á Kleppi. Verið svo vinsamlegir að hringja á lögregluna strax. Þetta var ákaflega ánæguleg máltíð, við getum vel hugsað okkur að koma aftur,“ sagði hann

Háskólarektor segir ekki ákveðið hvort að þeir félagar, eða almenningur, muni geta pantað borð á Grillinu.

„Það er alveg mögulegt. Við þurfum bara að skoða hvernig þetta þróast. En aðalatriðið að Grillið lifir og hér verður það í sem mest upprunalegri mynd hvað umgjörðina alla varðar.“

Mynd: RÚV – Ragnar Visage

Dansgólfið í Súlnasal horfið

Framkvæmdir standa yfir á öllum hæðum, þar sem áður voru hótelherbergi verða kennslu- og vinnurými og margs konar aðstaða fyrir menntavísindasvið skólans.

Súlnasalurinn var mjög vinsæll skemmtistaður á sínum tíma og þar urðu eflaust mörg hjónabönd til. Upphaflega var ekki gert ráð fyrir dansgólfi þar, heldur var þar stórt op. Gólfið hefur verið fjarlægt og nú sést betur hvernig súlurnar sem salurinn dregur nafn sitt af ganga sem burðarvirki í gegnum húsið.

„Við erum að nýta þessa hæð, aðra hæðina, mikið í kennslu og Súlnasalurinn verður hluti af því.“

Mynd: RÚV – Ragnar Visage

600 þúsund krónur fermetrinn

Jón Atli segir að það eigi eftir að koma í ljós hvernig frekari nýting verður á Súlnasalnum. Hann segir framkvæmdir á áætlun og að stefnt sé að því að flytja inn á haustmisseri. Í árslok verði mestallt tilbúið. Verkið sé einnig á áætlun fjárhagslega.

Skólinn hafi fengið 3,5 milljarða króna í endurbætur og hálfan milljarð til viðbótar vegna verðbólgu og því til viðbótar lagði hann til nokkrar aðrar byggingar sem hann átti upp í kaupverðið .

„En þegar allt er talið og með þessum kostnaði, ef við tökum hann og líka verðbólguna, þá erum við að fá þetta á um það bil 600 þúsund krónur á fermetrann, þessa byggingu.“

Heimild: Ruv.is