Í gær, föstudaginn 12. apríl var skrifað undir samning við fyrirtækið Óskatak vegna fyrsta áfanga nýframkvæmda á Varmárvöllum.
Verkið var boðið út fyrr í vetur og var fyrirtækið Óskatak ehf með lægsta tilboðið eða kr. 136.359.500 sem var töluvert undir kostnaðaráætlun.
Verkið felur í sér jarðvinnu og fergingu vegna gervigrasvallar. Auk þess felst verkið í uppgreftri fyrir frjálsíþróttavelli, fyllingu og fergingu á honum þegar fergingu er lokið á gervigrasvelli.
Helstu magntölur í verkefninu eru:
- Hlaupabrautarefni, upprif og förgun: 4.800 m2
- Malbik, upprif og förgun: 5.600 m2
- Uppúrtekt og brottakstur: 18.360 m3
- Aðflutt malarfylling: 26.950 m3
- Brottflutt malarfylling, afgangsfarg: 2.900 m3
Verkið er þegar hafið en verið er að flytja efni á brott þessa dagana sem verður nýtt í uppgræðslu á gömlum efnisnámum í Krýsuvík. Gert er ráð fyrir að verkinu verði að fullu lokið í byrjun desember.
Næstu áfangar eru lýsing, lagnavinna og yfirborðsfrágangur sem verður boðið út í þremur útboðum. Sumarið/haustið 2025 verður svæðið fullbúið með knattspyrnuvelli (að undanskilinni stúku) og 200 m hlaupabraut ásamt æfingaaðstöðu fyrir frjálsar íþróttir.
Heimild: Mosfellsbær