Home Fréttir Í fréttum Undirbúningsframkvæmdir gætu hafist í sumar

Undirbúningsframkvæmdir gætu hafist í sumar

80
0
Hörður Arnarson er forstjóri Landsvirkjunar. RÚV – Guðmundur Bergkvist

Forstjóri Landsvirkjunar fagnar heimild Umhverfisstofnunar fyrir framkvæmdum í Þjórsá. Hann bindur vonir við að framkvæmdir hefjist síðsumars, að því gefnu að virkjunar- og framkvæmdaleyfi fáist.

<>

Fari svo að virkjunar- og framkvæmdaleyfi vegna Hvammsvirkjunar verði ekki gefin út fyrir sumarið verður framkvæmdum frestað um ár, segir forstjóri Landsvirkjunar. Hann bindur vonir við að leyfin verið gefin út innan tíðar svo hægt verði að hefja undirbúning síðsumars.

Fagnar heimild Umhverfisstofnunar

Umhverfisstofnun heimilaði á miðvikudag breytingar á Þjórsá vegna framkvæmda við Hvammsvirkjun og er nú á borði Orkustofnunar að ákveða hvort virkjunarleyfi verði gefið út. Orkustofnun veitti Landsvirkjun fyrst virkjunarleyfi í desember 2022, en úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi það úr gildi og taldi að ekki hefði verið rétt staðið að leyfisveitingunni.

Landsvirkjun sendi síðan Umhverfisstofnun beiðni um leyfi til að breyta svokölluðu vatnshloti Þjórsár, það er ánni sjálfri, vegna framkvæmdanna, og á það hefur stofnunin fallist. Forstjóri Landsvirkjunar fagnar þeim áfanga.

„Það er bara jákvætt að þetta skref er komið og nú vonum við bara að næstu skref, virkjanaleyfið og framkvæmdaleyfið komi fljótlega,“ segir Hörður.

„Ef við náum ekki undirbúningsframkvæmdum í sumar þá mun verkefnið seinka um eitt ár og virkjunin ekki vera gangsett 2028 eins og við stefnum að í dag, heldur 2029.“

Málið á borði Orkustofnunar

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, er farin í leyfi vegna forsetaframboðs og því óljóst hvar málið er statt hjá stofnuninni.

Sara Lind Guðbergsdóttir, sem í dag tók við starfi orkumálastjóra í fjarveru Höllu Hrundar, sagði í samtali við fréttastofu að það ætti að skýrast í næstu viku.

Hörður segir miklu skipta að ekki dragist á langinn að veita leyfin. Mikilvægt sé að hefja undirbúningsframkvæmdir í sumar.

„Ef við náum ekki undirbúningsframkvæmdum í sumar þá mun verkefnið seinka um eitt ár og virkjunin ekki vera gangsett 2028 eins og við stefnum að í dag, heldur 2029.“

Sara Lind Guðbergsdóttir er settur orkumálastjóri frá og með deginum í dag í fjarveru Höllu Hrundar Logadóttur, sem er í forsetaframboði.
Stjórnarráðið – Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið

Binda vonir við að virkjunin hafi lítil áhrif á laxastofninn

Umhverfisstofnun barst á annan tug umsagna og athugasemda frá bæði einstaklingum og félagasamtökum, á borð við Landssamband veiðifélaga og Veiðifélag Þjórsár, sem hafa lýst yfir áhyggjum af framtíð laxastofnsins í ánni. Hörður segist meðvitaður um þær áhyggjur.

„Það er alveg rétt að það er einn af áhættuþættinum með virkjuninni að þarna er stór laxastofn sem hefur vaxið mjög með virkjununum,“ segir Hörður.

„Hann hefur fjórfaldast í raun og veru frá því virkjanirnar komu. Okkar von er að þessi virkjun hafi lítil áhrif, en við erum mjög meðvituð um þá áhættu og munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að draga úr þeim áhrifum.“

Heimild: Ruv.is