Home Fréttir Í fréttum Bæjarstjóri Kópavogs segir ástandið í nýjum Kársnesskóla grafalvarlegt

Bæjarstjóri Kópavogs segir ástandið í nýjum Kársnesskóla grafalvarlegt

153
0
Mynd: RÚV – Eggert Þór Jónsson

Bæjarstjóri Kópvogsbæjar segir að mygla sem fannst í burðarvirki nýs Kársnesskóla hafi verið bakslag, og telur víst að bærinn þurfi ekki að greiða verktökum fyrir framkvæmdirnar.

<>

Bæjarstjórinn í Kópavogi segir myglu í nýjum Kársnesskóla bakslag en óljóst hver kostnaður bæjarins verður. Framkvæmdir við skólann hófust árið 2021 en í maí í fyrra rifti Kópavogsbær samningi við ítalska verktakafyrirtækið sem annaðist framkvæmdirnar.

Árið 2017 var gamla skólahús Kársnesskóla rýmt vegna myglu. Í framhaldinu var húsið rifið og ákveðið að hefjast handa við nýja byggingu. Framkvæmdin á nýja skólahúsnæðinu er sú dýrasta sem Kópavogsbær hefur ráðist í. Útboðið hljóðaði upp á 3,2 milljarða og var það ítalska fyrirtækið Rizzani de Eccher sem annaðist verkið.

Nokkru eftir að framkvæmdir hófust uppgötvuðust ýmsir gallar í verkinu, til dæmis mygla og raki í burðarvirki nýja skólans. Þá rifti Kópavogsbær samningi við ítalska fyrirtækið og tók yfir framkvæmdina.

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogsbæjar segir stöðuna grafalvarlega. „En við ákváðum hins vegar að stíga þetta skref. Og ég tel að þetta hafi verið rétt skref að stíga því það var auðvitað bara ekki í boði að taka áhættuna á því að húsið yrði ónýtt.“

„Að sjálfsögðu er bakslag að lenda í þessu“

Ásdís segir enn ekkert hægt að segja til um hver heildarkostnaðurinn kemur til með að vera. „En að sjálfsögðu er bakslag að lenda í þessu. Við hefðum auðvitað viljað vera komin með nýjan skóla sem uppfyllir þau gæði og kröfur sem við gerum til húsnæðisins.“

Upphaflega voru áætluð verklok í maí 2023 en nú er stefnt á að kennsla hefjist um áramót. Áfram verður bilið brúað með notkun færanlegra húsnæðiseininga fyrir kennslu.

Búast við að gerðardómur meti riftunina lögmæta

Ásdís segir fyrsta skrefið núna að fá úr því skorið hjá gerðardómi hvort riftun samningsins hafi verið lögmæt. Hún býst ekki við neinu öðru en að svo sé „enda voru vandefndirnar slíkar og mjög alvarlegar,“ segir Ásdís. Ef það reynist lögmætt munu kröfur verktakanna falla niður en Kópavogsbær mun áfram fara fram á bætur.

Heimild: Ruv.is