Home Fréttir Í fréttum Margra mánaða vinna að laga myglu og rakaskemmdir eftir ítalska verktakann

Margra mánaða vinna að laga myglu og rakaskemmdir eftir ítalska verktakann

237
0
Frá framkvæmdasvæði nýs Kársnesskóla, og innfellt er mynd af mygluðum útvegg. RÚV-Samsett – Ragnar Visage/Sigurður K. Þórisson

Marga mánuði hefur tekið að lagfæra rakaskemmdir og myglu í burðarvirki nýs Kársnesskóla í Kópavogi. Bærinn stendur jafnframt í deilum við ítalska verktakafyrirtækið sem samið var við um að reisa skólann á lóð þess gamla, sem var rifinn vegna myglu.

<>

Rakaskemmdir og mygla er meðal þess sem tafið hafa framkvæmdir við byggingu nýs Kársnesskóla í Kópavogi, sem er dýrasta framkvæmd sem Kópavogsbær hefur ráðist í. Bærinn stendur jafnframt í deilum við ítalska verktakafyrirtækið sem samið var við um verkið, en þeim samningi var rift í fyrra.

Ásthildur Helgadóttir, sviðsstjóri umhverfissviðs Kópavogsbæjar, segir að upp hafi verið komin alvarleg staða en nú sé framkvæmdin komin á beinu brautina.

Í febrúar 2017 var ákveðið að rýma gamla skólahús Kársnesskóla við Skólagerði, eftir að miklar rakaskemmdir og mygla fundust í húsinu. Þegar húsið hafði staðið autt í rúmt ár var boðin út hönnun á nýjum skóla og í október 2018 var hafist handa við að rífa gömlu bygginguna.

Útboði á framkvæmd nýrrar skólabyggingar á sömu lóð lauk snemma árs 2021. Við forhönnun var ákveðið að byggja skólann úr krosslímdum timbureiningum og var tilboði ítalska fyrirtækisins Rizzani de Eccher tekið. Það hljóðaði upp á 3,2 milljarða, en kostnaðaráætlun var litlu hærri. Í fyrstu var talað um áætluð verklok í maí 2023 en nú er stefnt á að kennsla geti hafist um áramót; rúmu einu og hálfu ári á eftir upphaflegri áætlun.

Mygla og raki í burðarvirki nýja skólans
Í maí var greint frá því að Kópavogsbær hefði rift samningi við ítalska verktakafyrirtækið, sagði það ekki hafa sinnt fullnægjandi úrbótum eftir að gallar komu fram á verkinu þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir.

Meðal þess sem fjallað var um í fjölmiðlum var að myglusveppur hefði greinst í ókláraðri nýbyggingunni, á lóð þeirrar gömlu sem rifin var vegna myglu. Í framhaldinu var ákveðið að bjóða verkið ekki út á ný heldur tók bærinn yfir framkvæmdina.

Í haust var svo að segja tjaldað yfir óklárað húsið til að verja það vatni og vindum í vetur, og hefur því lítið verið hægt að sjá að utan hvernig framkvæmdir ganga.

Skólabyggingunni var pakkað inn fyrir veturinn til að verja það og þurrka.
RÚV – Ragnar Visage

Fréttastofa óskaði eftir gögnum frá bænum um gang málsins í vetur. Í lok mars fékkst afhent stöðuskýrsla um framkvæmdirnar frá því í janúar, sem lögð var fyrir bæjarráð Kópavogs í mars. Þar má sjá að miklir gallar voru á framkvæmdinni eftir ítalska verktakafyrirtækið og hefur tekið marga mánuði að lagfæra það í stað þess að halda uppbyggingunni áfram.

Meðal þeirra galla sem komu í ljós er að talsverður raki greindist í útveggjaeiningum og var hann yfir viðmiðunarmörkum á jarðhæð, 2. hæð og í þaki. Bíða þurfti 2-3 mánuðum lengur en áætlað var eftir að rakastig í steyptri botnplötu færi undir viðmiðunarmörk, til að forðast myndun örvera og myglusveppa.

„Það var komin upp alvarleg staða og þannig staða að það þurfti að verja miklum tíma í að tryggja það að húsið væri í góðu ástandi þegar það kláraðist. Sú vinna hefur gengið mjög vel og er nánast lokið núna.

En það hefur verið umfangsmikið, við höfum þurft að rífa út bæði þakfrágang og inni líka, rífa út fullt af efni, byggingarefni, og setja nýtt í staðinn. Og tryggja þá að húsið sé þurrt og myglufrítt,“ segir Ásthildur Helgadóttir, sviðsstjóri umhverfissviðs Kópavogsbæjar.

Rakaskemmdir í utanhússklæðningu nýbyggingarinnar.
Skjáskot – Mánaðarskýrsla um framkvæmdir við Kársnesskóla

Umfangsmikið verk að yfirfara allar skemmdir
Í skýrslunni kemur fram að víða innandyra hafi verið komin mygla á yfirborð timbureininganna. Fjarlægja þurfti öll sýnileg ummerki rakaskemmda af timbureiningunum, þar sem minnsti grunur var um raka. Fram kemur að allt að 30 manns hafi unnið að því í janúar að slípa einingarnar til að fjarlægja ummerki rakaskemmda. Áætlað var að allri hreinsun á einingunum innandyra yrði lokið í mars.

„Já, þetta hefur verið mjög umfangsmikið, það þarf að beita réttum aðferðum við slípun og huga að öllum öryggisatriðum. Vera í búningum og með andlitsgrímur enda ekki heilsusamlegt að anda að sér ef það er mygla. Partur af þessari vinnu er líka að rakamæla til að tryggja að slípunin og hreinsunin beri árangur. Það hefur gengið vel og við erum loksins að komast á beinu brautina með að byggja upp húsið og klára það.“

Gluggar leka og mörg bretti af einangrun ónýt
Stór galli kom síðan í ljós varðandi áltréglugga, sem búið var að setja upp í húsinu. Þeir voru fyrst prófaðir í október og nóvember, og svo aftur í febrúar eftir lagfæringar.

„Slagregnsprófanir sýndu fram á að ál/trégluggar standast ekki álagskröfur byggingarreglugerðar,“ segir í skýrslunni. Þar segir að unnið sé að lausn með framleiðanda, og jafnframt farið í verðkönnun fyrir nýja glugga.

Ásthildur segir að vonandi sé að koma niðurstaða í það núna.

„Þannig var að gluggarnir sem fyrrverandi verktaki keypti reyndust svo leka og þess vegna hafa verið viðræður við framleiðandann, sem er danskur. En það er auðvitað tíu ára ábyrgð á þessum gluggum þannig að það verður tekin ákvörðun núna mjög fljótlega hvort keyptir verði aðrir nýir gluggar eða hvort hægt er að nota þessa glugga sem fyrrverandi verktaki keypti,“ segir Ásthildur.

Þá tryggði ítalski verktakinn ekki byggingarefni á framkvæmdasvæðinu, en meðal annars varð stór hluti einangrunarefnis ónýtt.

„Já, það er rétt. Það voru fleiri bretti sem þurfti að henda og var ónýtt, og eins timburklæðning sem stóð úti berskjölduð fyrir veðri og vindum sem þurfti bara að farga.“

Riftun samningsins til meðferðar í gerðardómi
Þegar tilboði Rizziani de Eccher var tekið árið 2021, hljóðaði kostnaðaráætlun bæjarins upp á rúma 3,6 milljarða og að byggingin yrði tilbúin vorið 2023. Þegar fréttastofa óskaði eftir gögnum frá Kópavogsbæ um stöðu framkvæmda fengust ekki upplýsingar um kostnað eða uppfærða kostnaðaráætlun.

„Það er auðvitað flókið mál og slæmt að þurfa að rifta svona verksamningi, og þarfnast mikils undirbúnings áður en ákveðið er að rifta. Þetta er stærsta framkvæmd sem Kópavogsbær hefur farið í, verksamningur upp á rúma þrjá milljarða á því verðlagi, þegar samningurinn var undirritaður. Það er óhjákvæmilegt að aðilar verði fyrir tjóni. En það er bara of snemmt að segja til um það hversu mikið tjón það verður,“ segir Ásthildur.

Ásthildur Helgadóttir, sviðsstjóri umhverfissviðs Kópavogsbæjar.

Auk þess sem bærinn tók yfir framkvæmdina, og áætluð verklok eru rúmu einu og hálfu ári á eftir upphaflegum áætlunum, þá er deilt við ítalska verktakafyrirtækið vegna riftunar samningsins síðasta vor. Er riftunin nú til umfjöllunar fyrir gerðardómi.

„Niðurstaða er ekki komin og bara of snemmt að segja til um hvernig það endar. Allur kostnaður sem hefur verið vegna lagfæringa, og það sem búið var að vinna og þurfti að lagfæra, það er kostnaður sem við teljum okkur geta sótt, en það verður bara að koma í ljós. Niðurstaða í gerðardómi á að koma núna í sumar og þá við vitum við meira hvernig landið liggur í því.“

Framkvæmdasvæði nýs Kársnesskóla eins og það var í maí í fyrra þegar samningi var rift við Rizziani de Eccher.
RÚV – Andri Yrkill Valsson

Samningi rift við sama verktaka í Danmörku
Kópavogsbær er ekki eini verkkaupinn sem stendur í deilum við Rizziani de Eccher. Fyrirtækið sá meðal annars um byggingu nýrrar álmu við sjúkrahús í Bispebjerg, norðan Kaupmannahafnar. Þær höfðu staðið í fjögur ár þegar bæjaryfirvöld þar ákváðu að rifta samningi við Ítalina um verkið fyrir skemmstu. Þá var talið að framkvæmdin hefði þegar tafist um þrjú ár og kostnaður aukist mikið.

„Við fengum veður af því í fjölmiðlum að þeir væru að byggja stóran spítala í Danmörku, sem er tífalt stærri en skólinn sem þeir voru að byggja hér, og það væri mikil seinkun á verkinu og einhver fjárhagsvandræði hjá móðurfyrirtækinu á Ítalíu. Þannig að við funduðum með Dönunum, deildum okkar reynslu og hvernig staðan væri hjá þeim.“

Ekki mistök að velja þetta burðarvirki
Eins og áður segir er þetta dýrasta framkvæmd sem Kópavogsbær hefur ráðist í. Farið hefur verið eftir öllum lögum um opinber innkaup, útboð á hönnun og framkvæmd, en telur Ásthildur það hafa verið mistök að ætla að byggja skólann úr þessum krosslímdu timbureiningum?

„Nei ég vil nú ekki segja að það hafi verið mistök. Það er vel hægt að byggja úr þessu byggingarefni, sem er auðvitað mjög umhverfisvænt, við íslenskar aðstæður. Það þarf auðvitað að gæta bara að rakamálum og það er hægt að gera það. Það er víða gert erlendis þar sem er mikil rigning og kannski svipaðar aðstæður og eru hér á landi. Ég vil ekki kenna því um að þetta burðarvirki var valið á sínum tíma.“

Ásthildur ítrekar að tryggt verði að allt sé þurrt og myglufrítt, ef eitthvað sé á gráu svæði þá verði því skipt út. Samkvæmt verkáætlun er nú stefnt á að taka skólann í notkun um áramót. Þar verður kennsla fyrir 1.-4. bekk Kársnesskóla, auk leikskóla.

„Já, við erum að vona að við séum komin upp úr því að finna eitthvað óvænt sem þurfi mögulega að fjarlægja. Þannig núna sjáum við fram á að geta bara byggt upp að fullu og áætluð verklok eru þarna um áramótin. Að kennsla hefjist í janúar. Það hefur verið lærdómsríkt að fara í gegnum þetta og við munum tryggja að dreginn verði lærdómur af þessu,“ segir Ásthildur Helgadóttir, sviðsstjóri umhverfissviðs Kópavogsbæjar.

Heimild: Ruv.is