Home Fréttir Í fréttum Byggt og byggt á Akra­nesi

Byggt og byggt á Akra­nesi

108
0
Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, sem hefur nóg að gera við að fylgjast með öllum byggingaframkvæmdum á staðnum. MAGNÚS HLYNUR HREIÐARSSON

Sjaldan eða aldrei hefur verið eins mikil uppbygging á Akranesi eins og nú en þar er verið að byggja og framkvæma fyrir fleiri, fleiri milljarða á árinu. Þá fjölgar íbúum stöðugt á staðnum og eru í dag orðnir átta þúsund og þrjú hundruð.

<>

Það er alltaf gaman að koma á Akranes, ekki síst núna því það er svo mikil uppbygging á staðnum og allt að gerast eins og stundum er sagt. Íbúum fjölgar líka stöðugt í kaupstaðnum, eða um tvö prósent á ári og eru í dag um átta þúsund og þrjú hundruð. Bæjarstjórinn, Haraldur Benediktsson vill þó ekki að íbúum fjölgi of hratt, það sé alls ekki markmið.

„Heldur er það markmið okkar að tryggja hérna lífsgæði og gæðin við það að búa á Akranesi og það gerum við best með því að halda vel utan um skólastarfið, leikskólastarfið, íþrótta- og æskulýðsmálin, sem eru svona aðalsmerki Akraneskaupstaðar, sem er íþróttastarfið,“ segir Haraldur.

Þannig að þið eruð ekkert að keppast við það að fjölga íbúum?

„Við bjóðum alla velkomna, sem hingað vilja flytja og byggja en við erum líka upptekin af því að gæðin séu alltaf höfð í fyrirrúmi,“ segir bæjarstjórinn.

Haraldur segir að í ár sé algjört met í allskonar framkvæmdum á Akranesi í ár, það sé alls staðar verið með hamra á lofti enda byggt og byggt.

Í dag eru íbúar Akraneskaupstaðar um átta þúsund og þrjú hundruð.
MAGNÚS HLYNUR HREIÐARSSON

„Við erum í heilmiklum endurbótum á okkar skólahúsnæði, báðir skólarnir eru í gagngeri endurbyggingu og við erum á lokasprettinum að byggja nýtt og glæsilegt íþróttahús.

Við erum líka að gera upp gamla íþróttahúsið okkar, eða íþróttahúsið við Vesturgötu, sem átt það sammerkt með mörgum okkar húsum að lenda hér í loftgæðamálum en okkur hefur tekist að endurbyggja, breyta og laga.

Þannig að við erum í mestum framkvæmdum, sem Akraneskaupstaður hefur staðið í nánast frá upphafi núna þessi árin. Það eru býsna margir milljarðar, sem fara í allar þessar framkvæmdir“, segir Haraldur.

Heimild: Visir.is