Home Fréttir Í fréttum Segir ástandsskoðanir NTÍ í Grinda­vík fúsk

Segir ástandsskoðanir NTÍ í Grinda­vík fúsk

96
0
„Þar sem hallamálið er, er veggurinn sprunginn sitthvoru megin og samhliða. Ég braut inn í vegginn þarna og sprungan virðist ná í gegn og veggurinn virðist klofinn,“ segir Hilmar Freyr en hann er afar ósáttur við ástandsskoðun á húsinu hans í Grindavík. VÍSIR/SAMSETT

Grind­víkingurinn Hilmar Freyr Gunnarsson vill að Al­þingi fari yfir fram­kvæmd á­stands­skoðana Náttúru­ham­fara­tryggingu Ís­lands (NTÍ) á húsum í Grinda­vík. Hann segir fram­kvæmdina for­kastan­lega og fúsk. Forstjóri NTÍ segir aðeins um fyrstu matsgerð að ræða og hvetur fólk til að skila inn athugasemdum sé það ósátt.

<>

„Við fengum skoðun 12. desember og fengum út úr því núna, tæpum þremur mánuðum síðar,“ segir Hilmar Freyr Gunnarsson, byggingartæknifræðingur og húsasmíðameistari

„Það fyrsta sem ég hugsaði var bara að þetta væri keypt skýrsla af NTÍ. Hún bar öll merki um það. Það er atriðum sleppt og þessar aðgerðir og úrbætur sem eru lagðar til eru að mestu bara fúsk. Þetta er eitthvað sem við myndum aldrei sætta okkur við í þessum byggingarbransa,“ segir Hilmar Freyr en hann hefur sjálfur unnið við ástandsskoðanir og viðhald.

Myndin er tekin í vesturhluta hússins en þar er staðbundið missig. Hurðarkarmurinn hallar um 2,7 millimetra. „Þar sem hallamálið er, er veggurinn sprunginn sitthvoru megin og samhliða. Ég braut inn í vegginn þarna og sprungan virðist ná í gegn og veggurinn virðist klofinn,“ segir Hilmar.
MYND/HILMAR FREYR

Matsgerðin
Í matsgerð frá NTÍ segir um íbúðina að óverulegur halli sé á botnplötu, að staðbundið missig sé í vesturhluta hússins og að töluvert sé um sprungur innanhúss. Steyptur burðarveggur sé sprunginn og að mikið af sprungum séu nærri hornum og láréttar sprungur út frá og á milli opa.

„Nokkrar veggflísar á baðherbergi hafa ýmist losnað eða sprungið. 1 stk. rúða var brotin í stofu. Húseigandi óskaði eftir að fráveitulögn yrði mynduð vegna merkja um jarðhræringar framan við húsið. Ekkert gefur þó til kynna að hún sé úr lagi gengin,“ segir enn fremur.

Myndin er tekin inni í herbergi sonar Hilmars. Á myndinni sést að sig er í botnplötu. „Maður finnur tómarúm þarna undir,“ segir Hilmar.
MYND/HILMAR FREYR

Við aðgerðir og úrbætur segir að flota þurfi gólf í vesturhluta hússins þar sem sé missig og endurnýja gólfefni. Þá þurfi að loka grófum sprungum með epoxy-lími til að þétta og líma burðarvirkið. Þá er mælt með því að laga sprungur í léttum innveggjum með annaðhvort múrviðgerðum eða sparsli. Það fari eftir stærð sprungunnar.

„Endurnýja þarf múrhúð í stofu þarf sem núverandi múr hefur sprungið út og endurmála alla veggi sem hafa verið viðgerðir. Ýmist þarf að endurnýja eða endurlíma flísar á baðherbergi og endurnýja gler í stofu.“

Á myndinni er hlaðinn veggur á gangi í húsi Hilmars. Hurðarkarmurinn er sá hvíti sem er mældur á myndinni að ofan og hallar. Veggurinn er sprunginn í gegn og er sprunga á þvervegg fyrir innan sem sést vel á mynd fyrir neðan.
MYND/HILMAR FREYR

Um bílskúr sem fylgir húsinu segir að óverulegur halli sé á botnplötu gólfsins og að utan sé ein lóðrétt 1 til 2 millimetra sprunga á horni við sorpgeymslu og eftir þakkanti. Mælt er með því að loka sprungunum með epoxy-lími og múra í þakkant og endurmála vesturhlið hússins.

Ekkert skoðað af hverju gólfið sígur
„Þar sem að hallinn er mestur í gólfinu vilja þeir að ég floti gólfið,“ segir Hilmar og að engin krafa sé gerð í skoðuninni um nánari skoðun á því af hverju gólfið sé að síga. Þá bendir hann á að útveggur við gólfið hallar um 27 millimetra en að hann sé ekki nefndur í skýrslunni.

Þá segir hann hlaðnir innveggir séu sprungnir „í drasl“ og að í ástandsskoðun sé lagt til að þeir séu lagaðir með sparsli. Þá séu þrjár innihurðar í íbúðinni sem ekki lokast en lagt er til að þær séu teknar úr og settar aftur í rétt.

Myndin er tekin í vesturhluta hússins en þar er staðbundið missig. Hurðarkarmurinn hallar um 2,7 millimetra. „Þar sem hallamálið er, er veggurinn sprunginn sitthvoru megin og samhliða. Ég braut inn í vegginn þarna og sprungan virðist ná í gegn og veggurinn virðist klofinn,“ segir Hilmar.
MYND/HILMAR FREYR

„Þessi vinnubrögð eru algjörlega forkastanleg,“ segir Hilmar og að sá tími sem verkfræðingarnir fengu, 45 mínútur, hafi alls ekki verið nóg og að þeir hefðu í raun átt að neita að sinna skoðunum innan þessa tímaramma.

„Fyrir mér eru þetta bara fúsk-vinnubrögð og þetta hefði aldrei átt að fara svona út,“ segir Hilmar Freyr og að hann hafi í fyrstu haldið að hans skýrsla væri gölluð. Eftir að hann sá fleiri skýrslur var honum ljóst að svo væri ekki.

„Við viljum að hlutirnir séu uppi á borðum og það sé sagt satt og rétt frá. Að ég fái rétt mat á húsinu mínu og viti ástandið á því. Þetta gerir ekkert fyrir okkur. Kostnaðarmatið er svo annað. Það væri aldrei hægt að gera þetta fyrir þennan pening og ég fengi aldrei verktaka í þetta fyrir þennan pening, og að taka ábyrgð á því,“ segir hann en kostnaðarmatið er upp á 4,4 milljónir. Það er með efniskostnaði.

„Þetta snýst um gólfsig og hvernig þú skoðar það og metur og kemur með úrbætur og kostnað. Við erum að tala um burðarvirki sem er aflaga og skemmt. Hvernig á að laga það? Náttúruhamfaratryggingar eiga að tryggja húsin þannig að þau verði jafngóð og þau voru fyrir. Þetta er bara að henda plástri yfir stórt sár og ætla að það haldi. Þetta gengur ekki upp,“ segir Hilmar Freyr sem viðurkennir að hann er orðinn ansi þreyttur og reiður.

Ekki viðgerðir sem duga á jarðskjálftasvæði
Spurður hversu langan tíma hann myndi sjálfur taka í að skoða svona hús segir Hilmar að það taki einn dag að fara ítarlega yfir hús í svona ástandi.

„Ef hús er farið að síga þarf að vega og meta styrkleikamössun í burðarveggjum, í gólfplötum og fleiru. Til að sjá hvað er í gangi og hvernig á að laga það,“ segir Hilmar og það þurfi líka að tryggja að þær viðgerðir sem farið er svo í séu nægjanlegar. „Við erum líka á jarðskjálftasvæði.“

Á myndinni er hlaðni veggurinn sem er á myndinni fyrir ofan, en fyrir innan. Hurðarkarmurinn sem er mældur á myndinni fyrir ofan sést í hægra horninu.
MYND/HILMAR FREYR

Hilmar Freyr gerir einnig athugasemdir við það að í skýrslunni eru engin viðmið gefin. Það er talað um missig en ekki sagt um hversu mikið eða hvað sé eðlilegt. Það sé ekki hægt að meta hvað sé „verulegt“ og hvað sé „óverulegt“ miðað við það sem kemur fram í henni.

„Við erum ekki að tala um framtíðarlausnir á viðgerðum. Þetta eru einhverjar svona YouTube- viðgerðir. Þetta er bara fúsk og verkfræðistofur eiga ekkert að gefa svona frá sér. Og NTÍ á ekki að gefa svona frá sér,“ segir Hilmar Freyr.

Heimild: Visir.is