Home Fréttir Í fréttum 800 milljóna hausverkur í byggingaframkvæmd eldri Egilsstaðabúa

800 milljóna hausverkur í byggingaframkvæmd eldri Egilsstaðabúa

192
0
Sigurgarður reisir 24 íbúða blokk á lóðinni Miðvangi 8 í miðbæ Egilsstaða. Framkvæmdir við botnplötuna hefjast að nýju þegar frost fer úr jörðu. RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Félag sem byggir blokk fyrir eldra fólk á Egilsstöðum fékk aðeins eitt tilboð í stærsta verkþáttinn sem var 800 milljónum yfir kostnaðaráætlun. Þetta er óheppilegt því framkvæmdir eru hafnar og kaupendur búnir að leggja fé í íbúðirnar.

<>

Hópur eldra fólks á Egilsstöðum hefur skuldbundið sig til að kaupa íbúðir í blokk sem gæti orðið dýrari en lagt var upp með. Framkvæmdir hófust áður en tilboð fékkst í allt verkið og reyndist það 800 milljónum yfir kostnaðaráætlun. Verkefnastjóri byggingafélagsins gagnrýnir verktaka fyrir hátt tilboð og sveitarfélagið Múlaþing fyrir að vilja ekki kaupa sal í húsinu.

Eldra fólk tók sig til og byggir sér blokk
Félagið Sigurgarður byggir blokk með 24 íbúðum og 200 fermetra sal í miðbæ Egilsstaða. Fyrirkomulagið er óvenjulegt og hefur vakið athygli því kaupendur íbúðanna fjármagna framkvæmdina sjálfir og eru hluthafar í Sigurgarði. Þetta er eldra fólk á Egilsstöðum sem segja má að sé að byggja sér blokk.

Samið var við MVA um að steypa botnplötuna og hófst sú vinna síðasta sumar. Væntanlegir íbúðareigendur leggja út fyrir þeim framkvæmdum og það sama gildir síðar um aðra verkþætti. Vandamál kom hins vegar upp í vetur þegar Sigurgarður, fyrst þá, óskaði tilboða hjá heimaverktökum í að byggja og fullklára blokkina. Aðeins eitt tilboð barst, frá MVA, en var um 800 milljónum króna yfir kostnaðaráætlun.

Hafnar því að stórir gallar hafi verið á kostnaðaráætlun
Sveinn Jónsson, verkefnastjóri Sigurgarðs, segir að áætlun hafi miðað við tvo milljarða og að íbúðaverð yrði nokkuð hátt enda er bílakjallari undir húsinu og aukaíbúðir fyrir gesti. En að blokkin eigi að kosta 2,8 milljarða sé alveg út úr kortinu, eins og hann orðar það. Hann hafnar því að kostnaðaráætlun hafi verið stórlega röng og fullyrðir að tilboð MVA hafi verið allt of hátt. Sigurgarður hafi nú áfangaskipt verkinu og sent MVA gagntilboð. Boltinn sé hjá þeim.

Vill að verktakinn taki þátt í „samfélagsverkefni“
„Þeir verða að sýna að þeir séu vandanum vaxnir. Þetta er samfélagsverkefni og þeir eiga möguleika á að vaxa með þessu verkefni en þá þurfa þeir að koma á móts við verkefnið,“ segir Sveinn.

Þá gagnrýnir hann sveitarfélagið Múlaþing. Þjónusturými sem verður í húsinu hafi verið hugsað sem aðstaða fyrir eldri borgara. Múlaþing neiti hins vegar á kaupa plássið.

„Það höfðu verið væntingar til þess að sveitarfélagið myndi fjárfesta í því til að auka við og bæta aðstöðu fyrir starfsemi eldri borgara tengt við Hlymsdali. En sveitarfélagið hefur hlaupist undan merkum hvað það varðar. Við komum til með að selja þetta hæstbjóðanda þegar þar að kemur. Þetta er verslunar og þjónustuaðstaða á besta stað í bænum,“ segir Sveinn.

Fengu stærstan hluta gatnagerðargjalda felldan niður
Múlaþing hefur reyndar litið framkvæmdina jákvæðum augum eins og sjá má í fundargerðum og fellt niður 75% af gatnagerðargjöldum lóðarinnar, meðal annars þar sem djúpt var niður á fast á lóðinni. Sveinn segir að grafa hafi þurft niður á 15 metra þar sem dýpst er.

Sigurjón Bjarnason stýrir byggingafélaginu Sigurgarði og gerir ráð fyrir að framkvæmdir við botnplötuna haldi áfram fljótlega og að hún verði klár með vorinu. Enn séu formlega 24 hluthafar í Sigurgarði en einhverjir hafi nú heltst úr lestinni og taki ekki þátt í byggingarkostnaði.

„Við erum að nota þennan tíma til að ná fram viðunandi tilboðum frá öðrum verktökum. Til að ná niður byggingarkostnaði,“ segir Sigurjón.

Leita leiða til að gera blokkina ódýrari
Mögulega verði hægt að breyta einhverjum forsendum til að lækka kostnað. Útlitinu verði ekki breytt en mögulega burðarvirkinu. Ekkert sé unnið í því núna að fá nýja kaupendur inn í staðinn fyrir þá sem eru hættir við. Fyrst þurfi að sjá hver byggingarkostnaður verði.

„Málið snýst núna um að gera góða díla. Það verður farið að skýrast í apríl hvernig samningar takast,“ segir Sigurjón og bindur vonir við að MVA finni lausnir sem geri uppsteypu hússins og frágang klæðningar ódýrari.

Heimild: Ruv.is