Neyðarlínan og fjarskiptafyrirtækin ætla að reisa allt að 24 fjarskiptasenda á Vestfjörðum. Koma á farsímasambandi á alla stofnvegi fyrir árslok 2026.
Fjarskiptafyrirtækin hyggjast reisa 24 farsímasenda á Vestfjörðum. Koma á símasambandi á alla stofnvegi fyrir árslok 2026 sem mun auka öryggi vegfarenda til muna.
Í Ísafjarðardjúpi er fjölfarinn vegur en fáir mannabústaðir. Víða er sambandslaust í botni fjarða. Það sama má segja um sunnanverða vestfirði og strandir. Ef eitthvað kemur upp á getur reynst erfitt að nálgast hjálp. Nú stendur þó til að bæta úr því.
Símasamband á stofnvegi fyrir árslok 2026
Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri byggðaþróunar hjá Vestfjarðastofu segir gleðiefni að hreyfing sé komin á fjarskiptamálin fyrir vestan. „Það hefur verið sett fram sú stefna að fjarskiptasamband á stofnvegum verði komið í samt lag um allt land fyrir árslok 2026. Það þýðir að það þarf að byggja upp mikið af sendum á Vestfjörðum. Mér er sagt allt að 24 sendar þurfi að vera byggðir upp hérna til að ná að dekka firði og fjöll og hálsa.“
Skilyrði við endurnýjun tíðniheimilda
Þegar fjarskiptastofa endurnýjaði samning um tíðniheimildir í fyrra var fjarskiptafyrirtækum gert skylt að tryggja samband á stofnvegum. Á Vestfjörðum er markaðsbrestur vegna fólksfæðar svo þau mega samnýta sendana. Búið er að kortleggja mögulegar staðsetningar og næsta skref er að fá leyfi fyrir byggingu þeirra hjá landeigendum en það getur tekið tíma. Talsmaður Símans segir þó raunhæft að ljúka verkinu fyrir árslok 2026.
Bæta á farsímasamband á stofnvegum um allt land en það er aðeins fyrir vestan sem fjarskiptafyrirtækin, Neyðarlínan og Öryggisfjarskipti hf vinna saman að uppbyggingunni. Aðstæður fyrir vestan eru krefjandi vegna legu landsins. Sendarnir eru knúnir með rafmagni sem ekki er auðfáanlegt allstaðar þar sem reisa á senda.
Ekki Tetrasamband heldur
Aðalsteinn segir samskiptaleysið einnig hafa haft áhrif á fjarskipti viðbragðsaðila. „Það er sama gat sem er í Tetrakerfinu sem er kerfið sem lögreglan og almannavarnir eða viðbragðsaðilar nota.“ Þau geta sett upp endurvarpa sem teppir þó tæki og mannskap. Samkvæmt samskiptafulltrúa Símans
Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum bendir á að farsímasamband sé mikilvægt til að koma skilaboðum til fólks. „Almannavarnir eru í ríkum mæli að nýta sér sms-sendingar þegar hættuástand varir og það er ekki gott ef það er sambandsleysi þegar akkúrat slík boð eru send út.“
Gerir fólki erfitt að kalla eftir hjálp
Þess eru dæmi að slys hafa orðið á blindu blettunum, líkt og banaslysið sem varð í Skötufirði 2021. „Næstu vegfarendur þeir sem komu auga á þetta, þeir voru ekki í símasambandi á vettvangi, þannig að annar þeirra þurfti að keyra út af svæðinu í nokkra kílómetra til að ná smabandi við neyðarlínu.“
Hlynur vonast til þess að slíkum tilvikum fækki ef farsímakerfi verður bætt.
Heimild: Ruv.is