Home Fréttir Í fréttum Mygla greindist í stjórnsýsluhúsinu á Húsavík

Mygla greindist í stjórnsýsluhúsinu á Húsavík

49
0
Mynd: RÚV

Mygla greindist á dögunum í húsakynnum stjórnsýslunnar í Norðurþingi. Óvíst er hvort þurfi að flytja starfsemina.

<>

Mygla hefur greinst á bæjarskrifstofum Norðurþings. Sveitarstjóri segir löngu tímabært að endurskoða húsakost stjórnsýslunnar á Húsavík.

Stjórnsýsluhúsið við Ketilsbraut á Húsavík er komið til ára sinna og hafði starfsfólk grunað um nokkurt skeið að raki væri í húsinu. Niðurstaða greiningar verkfræðistofunnar Verkís leiddi svo í ljós að mygla er á þremur stöðum, en kjallarinn er verst farinn.

Vatn komist bakvið múr
„Það eru reyndar engar vistarverur í kjallaranum eða skrifstofur, bara geymslur. En síðan eru líka gallar í gluggum hérna á norðurhluta hússins þannig það hefur komist vatn þar á bakvið múrinn,“ segir Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri í Norðurþingi.

Hún bætti við að þau þyrftu að skoða húsnæðismál sveitarfélagsins „í stærra samhengi“.

Einn starfsmaður fann til óþæginda
Hún segir einn starfsmann hafa fundið til óþæginda eftir viðveru í húsinu og sá vinni núna að heiman. Að öðru leyti segir hún þetta hafa lítil áhrif á starfsemina, en opnunartíma var þó breytt lítillega, að hluta vegna myglunnar. Katrín segir þó minni aðsókn á opnunartíma líka hafa haft þar áhrif.

Byggðaráð fjallar um málið á fimmtudag í næstu viku og skýrist þá væntanlega hvort bæjarskrifstofurnar verði fluttar.

„Við erum með stjórnsýsluna í 1300 fermetrum og húsnæðið að mörgu leyti óhentugt þannig við erum að meta það hvort það sé skynsamlegt að færa stjórnsýsluna til og fara í minna húsnæði þar sem eru meiri samvinnuskrifstofur.“

Heimild: Ruv.is