Undirbúningur að hönnun og byggingu nýbyggingar við Sjúkrahúsið Akureyri er á fleygiferð.
Verkefnið felur í sér hönnun á um 9.200 m2 nýbyggingu ásamt lóðarhönnun og aðkomu að deiliskipulagsbreytingu.
Gert er ráð fyrir að nýbygging verði staðsett sunnan við núverandi byggingar á lóð SAk og tengd núverandi húsnæði með tengibygginu.
Mikil vinna hefur átt sér stað innan veggja SAk í samstarfi við NLSH (Nýr Landspítali) undanfarnar vikur og mánuði í tengslum við hönnunarsamkeppni fyrir nýbygginguna.
„Það hafa verið stífar vinnustofur og fundir með fagfólki deilda innan SAk undanfarið til að yfirfara þarfagreiningu og framtíðarsýn.
Að byggja sjúkrahúsbyggingar er flókið, sérstaklega þegar þú ert að reyna að sjá ár og áratugi fram í tímann samhliða þróun í samfélaginu, tækni- og þjónustuþörf en samstarfið við NLSH hefur gengið mjög vel.
Þar er mikil þekking og reynsla samhliða framkvæmdunum við Hringbraut og öðrum verkefnum sem við njótum nú góðs af,“ segir Gunnar Líndal Sigurðsson, verkefnastjóri SAk í tengslum við nýbyggingu.
Beðið eftir hönnunartillögum
Í forvali voru fimm hönnunarhópar sem komust áfram. Útboðsgögn eru farin til þeirra og lokað útboð hönnunarsamkeppninnar hafið.
Áætlað er á að niðurstaða úr hönnunarsamkeppni liggi fyrir í lok maí á þessu ári.
„Nú bíðum við bara spennt eftir hönnunartilllögunum á lóð og nýbyggingu og tengingu hennar við eldra húsnæði. Dómnefnd mun síðan fara yfir þær tillögur og niðurstöðu er að vænta í lok maí.
Í framhaldi af því hefst notendastudd hönnun með þeim hönnunarhópi sem vinnur hönnunarsamkeppnina og vinna við útboðsgögn fyrir jarðvegsframkvæmdir og byggingu nýbyggingar,“ segir Gunnar.
Gert er ráð fyrir að legudeildir lyf- og skurðlækninga flytjist yfir í nýbyggingu ásamt geðþjónustu SAk í heild sinni, þ.e. dag-, göngu- og legudeildarstarfsemi.
Þar er gert ráð fyrir að öll legurýmin séu einstaklingsherbergi með salerni. Einnig verður gert ráð fyrir einangrunarstofum og að hægt verði að hólfa rýmið niður ef takast þarf á við farsóttir á borð við COVID-19.
„Geðdeildarstarfsemi er frábrugðin hefðbundinni sjúkrahússtarfsemi að því leyti að meiri rýmisþörf er á hvern skjólstæðing auk þess sem við leggjum mikla áherslu á að fylgja þeirri þróun sem hefur orðið í hönnun geðdeilda á Norðurlöndunum undanfarin ár varðandi batahvetjandi umhverfi og tengsl við náttúru.
Innra og ytra umhverfi og tengsl þess við starfsemi er gríðarlega mikilvægt og miklir möguleikar í boði á lóð SAk sem stendur í fallegu opnu landslagi hér á brekkubrúninni,“ segir Gunnar.
Löngu tímabært
Áætlað er að jarðvegsframkvæmdir hefjist strax á næsta ári og ef vel gengur má ætla að nýbygging verði risin og tilbúin til notkunar í lok árs 2028.
„Það má heldur betur segja að það séu bjartir tímar framundan hjá okkur á SAk í tengslum við þessa nýbyggingu sem gefur okkur löngu tímabært tækifæri til að efla og bæta þjónustu við skjólstæðinga á upptökusvæðinu.
Það er hagur allra að við getum veitt sem öflugasta þjónustu hér í heimabyggð eins og heilbrigðisstefna stjórnvalda segir til um. Með nýbyggingunni losna rými í eldri byggingum sem gefur okkur tækifæri á að auka aðra þjónustu eins og dag- og göngudeildarstarfsemi sem hefur farið ört vaxandi.
Samhliða þessu verkefni þarf að vinna mörg önnur verkefni til að mæta þeirri stækkun og fjölgun legurýma sem verður með nýbyggingunni þar meðal talið stækkun og endurnýjun á skurðstofum,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk.
Heimild: SAK.is