Home Fréttir Í fréttum Ætla að verja hálfum milljarði í úrbætur á fráveitu

Ætla að verja hálfum milljarði í úrbætur á fráveitu

136
0
-Hveragerði

Úrbætur í fráveitumálum gætu kostað Hveragerðisbæ hálfan milljarð króna næstu þrjú árin. Staðan er grafalvarleg og óviðunandi, að sögn heilbrigðisnefndar Suðurlands.

<>

Bæjarstjórn Hveragerðis áformar mikla fjárfestingu í fráveitu í bænum. Kostnaður er áætlaður hálfur milljarður króna næstu þrjú árin.

Í fundargerð heilbrigðisnefndar bæjarins frá í upphafi mánaðar segir að staða fráveitumála í bænum sé grafalvarleg og með öllu óviðunandi. Þar segir enn fremur að frekari uppbygging geti ekki átt sér stað í sveitarfélaginu nema úrbætur verði gerðar.

Eina hreinsistöðin bæjarins, í Vorsabæ, var tekin í notkun árið 2002 en síðan þá hefur íbúum fjölgað úr 1.900 í 3.200, eða um nærri 70%.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, formaður bæjarráðs Hveragerðisbæjar, segir að úrbætur séu áformaðar og furðar sig á harðorðum yfirlýsingum heilbrigðisnefndarinnar.

„Við erum að fá sérfræðinga frá Danmörku til að meta kostina og það er unnið sleitulaust að þessu,“ segir Jóhanna og vísar í fundargerðir bæjarstjórnar um drög að verkáætlun.

Enn liggur þó ekki fyrir með hvaða hætti verður brugðist við, þ.e. hvort ný skólphreinsistöð verði reist eða sú sem fyrir er stækkuð.

„Okkar sérfræðingar eru að skoða það. Ég svona tel líklegra að það verði byggð ný, en við erum bara með fagfólk í þessu,“ segir Jóhanna.

Heimild: Ruv.is