Kalt vatn rennur nú til Grindavíkur og stefnt er að að hleypa þrýstingi á lagnir. Til að byrja með er vatn látið renna til að hreinsa lagnirnar og eins og sjá má á meðfylgjandi myndum fossar vatn úr brunahönum í Grindavík.

„Þetta er mikill gleðidagur fyrir bæinn. Aðgerðir í dag snúa að því að koma vatni á stofnlögn á bryggjunni,“ segir Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík.

„Við þurfum að hleypa þrýstingnum mjög varlega á því heimtaugar geta verið frostsprungnar og verið í sundur,“ segir Einar.
Hann vonast til þess að vatn komist á hafnarsvæðið um hádegisbilið. Í framhaldinu verður svo hægt og rólega hleypt vatni á í hverfunum þar sem íbúar búa.

Heimild: Mbl.is