Home Fréttir Í fréttum Segir leigusala ítrekað seilast í tryggingafé leigjenda

Segir leigusala ítrekað seilast í tryggingafé leigjenda

161
0
Leigjendur þurfa oft að mála íbúðir áður en þeir skila þeim. Slíkt er þó ekki á ábyrgð leigjenda. RÚV – Ragnar Visage

Leigusalar gera oft tilhæfulaust tilkall í tryggingafé leigjenda, en slíkar deilur berast daglega inn á borð Leigjendasamtakanna.

<>

Fjölmörg dæmi eru um að leigusalar seilist í tryggingafé leigjenda án nokkurra heimilda. Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Leigjandasamtakanna, segir sorglegast að fjölmargir komist upp með tilhæfulausar kröfur eins og að fá leigjendur til þess að mála íbúðir áður en þeir skila þeim, en það er skýrt í lögum að slíkt viðhald sé á ábyrgð leigusalans.

„Leigusalar geta ekki gert þá kröfu að leigjendur haldi sinni íbúð í toppástandi út í hið óendanlega,“ segir Guðmundur Hrafn.

Oft ósætti vegna þrifa
Fjórir úrskurðir hafa nú fallið með skömmu millibili í kærunefnd húsamála, öll tengd tryggingafé leigjenda. Slíkar tryggingar geta hlaupið á verulegum upphæðum, meðal annars vildi einn leigusalinn halda eftir um tvö hundruð þúsund krónum af tryggingu sem taldi um níu hundruð þúsund krónur, því hann var ósáttur við þrif auk þess sem hann taldi þörf á málningarvinnu. Kröfunni var hafnað.

„Varðandi þrifin, þá verða leigjendur að þrífa eftir sig, en svo getur það verið prívat skoðun leigusalans hvort þrifin séu nægileg eða ekki. Ég held að sjaldnast haldi slíkar deilur fyrir úrskurðarnefndum eða dómstólum,“ segir Guðmundur en í einu málinu gerir leigusali kröfu um að leigjandinn greiddi honum ríflega fimmtíu þúsund krónur fyrir þrif, eftir að leigjandinn hafði þrifið íbúðina. Leigjandinn tapaði því máli fyrir kærunefnd húsamála, einfaldlega vegna þess að hann tók ekki til varna.

Daglega inn á borð samtakanna
Guðmundur Hrafn segir það meinsemd hversu gjarnir leigusalar eru á að seilast í tryggingarfé að ósekju. Slík mál berist daglega inn á borð leigjendasamtakanna. Þá sé það enn verra þegar þeir neiti að endurgreiða það vegna ágreinings, en það geti komið leigjendum í verulega vonda stöðu eins og hann sjálfur hefur fengið að finna fyrir. Þá gat hann ekki reitt fram tryggingafé fyrir næstu íbúð sem hann hugðist leigja og því var hann án húsnæðis í tvo mánuði.

Leigusali ber sönnunarbyrðina
„Mikilvægt er að halda því til haga að leigusali ber sönnunarbyrði þegar hann gerir kröfu í tryggingu. Hann þarf að sýna fram á tjónið, að það hafi ekki verið við upphaf leigusambands og að það hafi komið til vegna umgengni eða vanrækslu leigjandans,“ segir Guðmundur Hrafn og bætir við: „Þá erum við aftur að tala um tjón sem ekki hlýst af eðlilegri notkun eða sliti á slitflötum líkt og gólfefnum, málningu, naglföstum húsbúnaði og innréttingum.“

Guðmundur Hrafn Arngrímsson
RÚV – Viðar Hákon Gíslason

Milljarður sem leigusalar seilast eftir
Um 20 þúsund leigusamningar á Íslandi. Spurður hvort einhver leið er að áætla hversu háa upphæð leigusalar fá úr tryggingafé fólks án réttmætrar heimildar, svarar Guðmundur Hrafn:

„Ef þetta eru bara tíu prósent sem lenda í þessu á hverju ári, verður þessi kostnaður frekar hár miðað við að það er ekki algengt að tryggingaféð nemi um eina milljón. Það er milljarður sem menn eru þá að bítast á um.“

Mikil arðsemi húseigenda
Guðmundur Hrafn bendir á að samkvæmt lögum ber leigusölum að geyma tryggingaféð á vaxtareikningi, en of oft fær fólk sömu upphæð til baka og ekkert sem bendir til að leigusali hafi axlað þessa ábyrgð.

„Og þrátt fyrir stjarnfræðilega ávöxtun á íbúðarhúsnæði undanfarin 10 til 12 ár – og arðsemi sem er tífalt á við arðsemi hlutabréfa – þá girnast leigusalar samt sem áður tryggingarfé leigjenda með ófyrirleitnum hætti í æ meiri mæli,“ segir Guðmundur Hrafn ómyrkur í máli.

Þarf skýrara regluverk
„Leigjendur þurfa miklu skýrara regluverk um þá þætti er framkalla bótaskyldu. Og að sjálfsögðu eiga þeir að fá trygginguna til baka um leið og þeir skila íbúðinni,“ segir Guðmundur Hrafn.

„Leigusali ætti að geta keypt tryggingavíxil við móttöku íbúðarinnar til þess tíma sem hann telur að hugsanlegt tjón af völdum leigjanda komi fram. Tryggingafé leigjenda er eini aðgöngumiði leigjenda að öðru húsnæði.

Með því að gefa leigusölum tækifæri til að halda tryggingafé leigjenda í allt að fjórar vikur án þess að gera kröfu, er hægt að stefna leigjendum í voða eða setja þá í örvæntingafulla stöðu þar sem þeir samþykkja einfaldlega ósanngjarnar kröfur leigusala,“ segir Guðmundur Hrafn að lokum.

Heimild: Ruv.is