Home Fréttir Í fréttum Engin byggingar­leyfi í höfn þvert á full­yrðingar Arctic Fish

Engin byggingar­leyfi í höfn þvert á full­yrðingar Arctic Fish

87
0
HMS segir eina umsókn um byggingarleyfi vegna sjókvía hafa borist 3. nóvember síðastliðin en hún sé enn í vinnslu. VÍSIR/VILHELM

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur ekki gefið út byggingarleyfi vegna sjókvía. Þetta segir í svörum HMS við fyrirspurn fréttastofu en tilefnið eru ummæli sem höfð voru eftir framkvæmdastjóra Arctic Fish í Bæjarins besta um að leyfi væri í höfn.

<>

Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish, sagði í samtali við BB að Arctic Fish hefði tekið þá ákvörðun fyrir allnokkru að sækja um byggingarleyfi fyrir sjókvíar á eldissvæði við Sandeyri í Ísafjarðardjúpi og komin væri tilkynning frá HMS um að leyfið væri tilbúið.

Umsóknarferlið hefði tekið langan ti´ma þar sem stjórnvöld hefðu í raun ekki verið tilbúin til að fá umsóknir.

Þá var haft eftir Daníel að hann teldi að ný krafa um byggingarleyfi myndi ekki hafa áhrif á afgreiðslu umsóknar félagsins um laxeldi í Ísafjarðardjúpi þar sem leyfið væri í höfn.

Fullyrðingar Daníels virðast ekki standast skoðun ef marka má svör HMS við fyrirspurn fréttastofu.

„Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur ekki gefið út byggingarleyfi vegna sjókvía. Stofnunin tilkynnti í síðustu viku um breytta stjórnsýsluframkvæmd þar sem segir að frá og með 15. febrúar verði gerð krafa um byggingarleyfi vegna nýrra byggingarleyfisskyldra sjókvía sem rekstraraðilar hyggjast setja niður utan netlaga,“ segir í svari HMS, sem kom frá Önnu Guðmundu Ingvarsdóttur, aðstoðarforstjóra.

Fréttastofa spurði einnig að því hvort að einhverjar umsóknir hefði borist.

„Engin byggingarleyfi hafa verið gefin út af stofnuninni en ein umsókn hefur verið í úrvinnslu og barst hún þann 3. nóvember sl. Er hún enn til vinnslu. Samhliða því vinnur stofnunin að því að útfæra málsmeðferð og verkferla vegna leyfisveitingarinnar, en sjókvíar eru ekki hefðbundin mannvirki og þurfti því að aðlaga ferla að því.“

Því var ekki svarað með beinum hætti hvort HMS hefði sent Arctic Fish tilkynningu þess efnis að byggingarleyfi til handa fyrirtækinu væri tilbúið.

Heimild: Visir.is