Home Fréttir Í fréttum Ekki ákveðið að fresta stórframkvæmdum vegna Grindavíkur

Ekki ákveðið að fresta stórframkvæmdum vegna Grindavíkur

128
0
Mynd: RÚV – Ragnar Visage

Fjármálaráðherra segir engar ákvarðanir liggja fyrir um frestun stórra opinberra verkefna, eins og þjóðarhallar eða samgönguáætlunar, vegna óvæntra útgjalda í Grindavík.

<>

Fyrrverandi og núverandi fjármálaráðherra hafa sagt að aukin og óvænt útgjöld vegna Grindavíkur takmarki möguleika stjórnvalda á að verða við kröfum aðila vinnumarkaðarins um aðkomu hins opinbera að kjarasamningum.

Mörg stór verkefni eru á ýmsum stigum undirbúnings eða framkvæmda. Þar má til dæmis nefna verkefni eins og þjóðarhöll sem á að rísa árið 2027 þar sem hlutur ríkisins er 55%, en ríkið og Reykjavíkurborg stofnuðu fyrr í mánuðinum félag sem á að sjá um byggingu hallarinnar. Áætlaður kostnaður við höllina er liðlega fjórtán milljarðar króna.

Aðspurð hvort til greina komi að fresta verkefnum á borð við þetta vegna ástandsins segir fjármálaráðherra.

„Við erum auðvitað að hefja vinnu við fjármálaáætlun, uppfæra fjármálaáætlun sem að lögð er fram á þinginu. Við erum alltaf með ákveðið svigrúm í fjárfestingar, út frá hagkerfinu og öðru slíku skiptir máli að viðhalda því.

Hvað nákvæmlega hver forgangsröðunin þar innan er eitthvað sem hægt er að taka upp og skoða, en við ætlum ekki að keyra fjárfestingar niður, en við þurfum auðvitað að huga að þensluáhrifum og öðrum þáttum,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra.

Hún segir stjórnvöld með forgangsáætlun klára hvað varðar að standa við loforð og aðgerðir vegna Grindavíkur, einnig þurfi samfélagið að ná ábyrgum langtímasamningum og þá þurfi að tryggja næga verðmætasköpun svo hægt sé að viðhalda góðum lífskjörum.

„Hvernig nákvæmlega við svo stillum af fjárfestingar eða aðra þætti í fjármálaáætlun, það er í vinnslu og verður tekið í gegnum ríkisstjórn þegar þar að kemur.“

Þá séu verkefni eins og samgöngusáttmáli í endurskoðun, en ljóst sé að fjárfesta þurfi í samgönguinnviðum eins og öðrum innviðum, en engar ákvarðanir hafi verið teknar varðandi þessa hluti vegna Grindavíkur.

„Það liggja ekki ákvarðanir fyrir um það, nei.“

Heimild: Ruv.is