Home Fréttir Í fréttum Þéttbýli á vatnsverndarsvæði í bígerð

Þéttbýli á vatnsverndarsvæði í bígerð

100
0
Gunnarshólmi við Suðurlandsveg. RÚV – Bragi Valgeirsson

Áform eru uppi um fimm þúsund íbúða byggð á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins. Það er á jörðinni Gunnarshólma við Suðurlandsveg sem er utan samþykktra vaxtarmarka þéttbýlis á svæðinu til 2040.

<>

Fyrirtækið Aflvaki þróunarfélag og bæjarráð Kópavogs hafa vísað viljayfirlýsingu til samþykktar bæjarstjórnar um uppbyggingu fimm þúsund íbúða á jörðinni Gunnarshólma við þjóðveg eitt miðja vegu milli Sandskeiðs og Rauðavatns.

Þrautin þyngri gæti reynst að fá leyfi til að byggja þar þéttbýli því jörðin er á vatnsverndarsvæði og ekki er gert ráð fyrir þéttbýli þar samkvæmt svæðisskipulagi.

Rauða línan á kortinu sýnir vaxtarmörk þéttbýlis.
RÚV – Sigurður K. Þórisson

Meirihluti bæjarráðs Kópavogsbæjar samþykkti 25. janúar að vísa viljayfirlýsingunni til samþykktar bæjarstjórnar. Gunnarshólmi stendur á glæsilegum stað við Suðurlandsveg.

Samkvæmt fréttatilkynningu bæjarins yrði byggður upp lífsgæðakjarni fyrir 60 ára og eldri. Íbúðahverfið yrði með búsetuíbúðaformi og verður þar líka gert ráð fyrir tólf hundruð hjúkrunarrýmum, heilsuhúsi og nýsköpunarmiðstöð. Í tilkynningunni segir að stórátak þurfi í uppbyggingu og þjónustu fyrir fólk á efri árum.

Til dæmis muni Íslendingum eldri en 65 ára fjölga um 70 prósent næstu fimmtán ár. Í viljayfirlýsingunni er talað um að íbúum Kópavogs gæti fjölgað um 7.500 manns gangi áformin eftir.

Þá segir einnig að breyta þurfi svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins því svæðið sé utan vaxtarmarka þess. Og ennfremur að grundvallarforsenda uppbyggingarinnar sé að vatnsvernd verði í engu ógnað. Þessi atriði ítrekuðu fulltrúar minnihluta í bæjarráði í bókunum sínum á fundinum.

Séð yfir yfir Heiðmörk. Gvendarbrunnar eru litlu vötnin tvö á myndinni og þar við grillir í stöðvarhús Gvendarbrunna.
RÚV – Bragi Valgeirsson

Öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa samþykkt bindandi vaxtarmörk í svæðisskipulagi sínu. Samkvæmt því verður öll uppbygging þéttbýlis til 2040 að vera innan skilgreindra vaxtamarka. Gunnarshólmi er nokkuð utan þeirra marka.

Brú á Suðurlandsvegi við Gunnarshólma og skammt frá Geithálsi.
RÚV – Bragi Valgeirsson

Vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins sem sveitarfélögin þar hafa samþykkt er stórt. Gunnarshólmi er innan þess. Verndun er skipt í nokkra flokka og samkvæmt kortinu er Gunnarshólmi á öryggissvæði vegna grunnvatns. Umsjón með vatnsverndinni hefur framkvæmdastjórn skipuð fulltrúum frá heilbrigðiseftirlitum. Bæjarstjórn Kópavogs fjallar um viljayfirlýsinguna á fundi sínum 13. febrúar.

Heimild: Ruv.is