Framboð nýrra fasteigna í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins hefur dregist saman um tæplega helming á síðustu sex mánuðum. Ef fram fer sem horfir munu nýjar íbúðir til sölu á því svæði klárast í ár.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í greiningu Húsnæðis og mannvirkjastofnunar, HMS. Þá segir að gríðarlegur samdráttur hafi orðið í sölu nýrra íbúða á öllu landinu og er samdrátturinn mestur á höfuðborgarsvæðinu.
Eins segir að flestar íbúðir sem eru til sölu hafa 4 eða fleiri herbergi, en minna en fimmtungur þeirra inniheldur tvö eða færri herbergi.
Framboð minnkað um 11% á sex vikum
„Framboð nýrra íbúða á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum þess hefur minnkað um 11 prósent á síðustu sex vikum ársins 2023. Miðað við áframhaldandi þróun munu birgðir nýrra íbúða í nágrenni höfuðborgarsvæðisins klárast á þessu ári. Þetta kemur fram í upplýsingum sem HMS hefur unnið úr gögnum um fasteignaauglýsingar.
Samkvæmt gögnum HMS hefur nýjum auglýstum íbúðum fækkað hratt á síðustu sex mánuðum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, en þær voru 200 talsins um síðustu áramót samanborið við 320 um miðjan júní 2023. Á höfuðborgarsvæðinu jókst hins vegar framboð nýrra auglýstra íbúða frá miðjum júní fram í miðjan nóvember úr 530 í 950, en í lok síðasta árs hafði þeim svo fækkað niður í 850,“ segir í tilkynningu.
Vextinum lokið
„Um 3.300 íbúðir voru til sölu og dróst framboð þeirra saman í desember eftir samfelldan vöxt allt síðasta ár. Hlutfallslega dróst framboð íbúða til sölu mest saman á höfuðborgarsvæðinu en þar voru þær um 2.000. Af þeim 850 nýju íbúðum sem eru auglýstar til sölu eru um 37% í Reykjavík, á meðan 22% eru í Hafnarfirði sem og í Kópavogi og 17% eru í Garðabæ.
Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins hefur framboð íbúða aukist mest undanfarið í Reykjanesbæ, Árborg og á Akranesi. Munurinn er þó einkum sá að stór hluti fjölgunarinnar í Árborg og á Akranesi er til kominn vegna nýrra íbúða en þeim hefur aðeins fjölgað lítillega í Reykjanesbæ. Þá hefur hlutdeild nýrra íbúða í framboðinu einnig vaxið á árinu í Vogum og á Ölfusi en hins vegar er framboð íbúða þar óverulegt.“
Flestar íbúðir til sölu eru stórar
„Um helmingur allra þeirra 2.000 íbúða sem eru til sölu á höfuðborgarsvæðinu eru með 4 eða fleiri herbergi. Um 350 þeirra eru litlar íbúðir (0-2 herbergja) og um 650 þeirra 3ja herbergja. Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og annars staðar á landinu er samsetning framboðs íbúða sambærileg og megnið eða rúmlega 400 íbúðir 4 herbergja eða stærri, um 150 3ja herbergja og um 50 litlar íbúðir (0-2 herbergja),“ segir í tilkynningu.
Heimild: Mbl.is