Home Fréttir Í fréttum Segja nýja endastöð Strætó rýra verðgildi íbúða á svæðinu

Segja nýja endastöð Strætó rýra verðgildi íbúða á svæðinu

148
0
Íbúar Skúlagötu 10 og Klapparstígs 1-3 hafa margir hverjir lýst yfir mikilli óánægju með staðsetningu endastöðvarinnar. RÚV – Ragnar Visage

Íbúar Skúlagötu og Klapparstígs hafa miklar áhyggjur af loft- og hljóðmengun frá fyrirhugaðri endastöð Strætó á svokölluðum Skúlagötureit í Reykjavík. Framkvæmdastjóri Strætó segist skilja áhyggjur íbúa, þær séu þó óþarfar.

<>

Mikillar óánægju gætir meðal íbúa Skúlagötu og Klapparstígs vegna fyrirhugaðrar endastöðvar Strætó á svokölluðum Skúlagötureit í Reykjavík. Íbúar lýsa yfir áhyggjum af loft- og hljóðmengun, en framkvæmdastjóri Strætó segir áhyggjur óþarfar.

Nýrri endastöð ætlað að taka við af Hlemmi tímabundið
Samkvæmt tillögu að deiliskipulagi stendur til að koma fyrir endastöð Strætó, auk starfsmannaaðstöðu, við Skúlagötu í Reykjavík þar sem nú er bílastæði. Þessari nýju endastöð er ætlað að taka við af Hlemmi tímabundið vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Jóhannes Svavar Rúnarsson er framkvæmdastjóri Strætó.

„Verkáætlun Reykjavíkurborgar er að framkvæmdir við Hlemm hefjist í maí á þessu ári. Þannig að í kringum það þá færum við leiðir sem hafa endað á Hlemmi á tvo staði, annars vegar á Skúlagötureit og hins vegar við Háskóla Íslands, Gamla Garð sem eru kunnugir þeim svæðum,“ segir Jóhannes.

Tillagan var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í vikunni og vísað þaðan til borgarráðs til endanlegrar staðfestingar. Jóhannes segir framkvæmdina ekki flókna. Gámahús verði á bílastæðinu og því taki ekki langan tíma að koma endastöðinni í gagnið.

Jóhannes Svavar Rúnarsson er framkvæmdastjóri Strætó.
RÚV – Guðmundur Bergkvist

Krefjast þess að fallið verði frá tillögu um endastöð
Þessar fyrirætlanir hafa vakið hörð viðbrögð meðal íbúa Skúlagötu 10 og Klapparstígs 1-3. Fjölmargir íbúar hafa sent borgaryfirvöldum athugasemdir þar sem krafist er að fallið verði frá tillögunni. Skiptistöðin hafi aukna loft- og hljóðmengun í för með sér, skerði umhverfis- og útsýnisgæði og rýri verðgildi íbúða á svæðinu.

Fréttastofa náði tali af nokkrum íbúum sem allir báðust undan viðtali. Jóhannes segist skilja áhyggjur þeirra. Þær séu þó óþarfar.

Jóhannes segir að um leið og deiliskipulag að endastöð Strætó við Skúlagötureit verði samþykkt í borgarráði verði farið í framkvæmdir við Hlemm. Þær framkvæmdir muni að öllum líkindum taka einhver ár.
RÚV – Ragnar Visage

„Við teljum að það séu ekki neinar ástæður til þess að hafa áhyggjur. Og bendum á að þetta er endastöð og við erum auðvitað með endastöð víða í hverfum og þær hafa yfirleitt gengið vel. Við tryggjum auðvitað og gerum allt sem við getum til þess að ónæði af strætó verði sem minnst,“ segir Jóhannes.

„En maður skilur auðvitað vel áhyggjur íbúa. Þetta er breyting fyrir þá og eðlilega vill maður þá skoða hlutina vel.“

Heimild: Ruv.is