Home Fréttir Í fréttum „Er hugsanlegt að það sé holrými undir manni?“

„Er hugsanlegt að það sé holrými undir manni?“

101
0
Mynd: RÚV – Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir

„Maður verður taka einhvern tíma í að melta það sem hefur gerst á þessum stutta tíma,“ segir Benedikt Sigurðsson sem fylgdist með í beinni útsendingu þegar sprunga opnaðist við bæjarmörk Grindavíkur. „Gosinu er lokið en þessu er engan veginn lokið.“

<>

„Við erum að eiga við jörðina sjálfa og hreyfingar hennar sem enginn stjórnar nema hún sjálf,“ sagði Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík á tilfinningaþrungnum íbúafundi í gær. En hvernig er að koma til Grindavíkur eftir atburði síðustu daga?

Benedikt Sigurðsson, fréttamaður, var í hópi þeirra fjölmiðlamanna sem fékk að fara til bæjarfélagsins stuttu eftir að gosi lauk rétt við bæinn. Hann lýsir upplifun sinni í hlaðvarpsþættinum Sjö mínútur með fréttastofu RÚV. „Maður áttaði sig þá á því af hverju það er svona hættulegt að vera í bænum,“ lýsir Benedikt.

Hann segir þá hugsun hafa leitað á sig þegar hann stóð á malbiki og skoðaði sprungu í bænum með björgunarsveitarmönnum hvort það væri hugsanlegt að þarna væri eitthvað holrými undir, ekki síst eftir það sem gerðist í síðustu viku. „Það gerði vistina í Grindavík svolítið undarlega.“

Benedikt telur að Grindvíkingar standi ekki frammi fyrir þeirri spurningu hvort þá langi aftur heim heldur hvort það sé óhætt. „Fólk sem ég talaði við var ekki á þeim buxunum og af augljósum ástæðum. Er til að mynda óhætt að vera með börn í Grindavík? Ef nei, þá er svarið við þeirri spurningu hvort þú ætlir aftur til Grindavíkur augljóst.“

Heimild: Ruv.is