Home Fréttir Í fréttum „Leit stendur yfir, maðurinn er ekki fundinn“

„Leit stendur yfir, maðurinn er ekki fundinn“

62
0
Leitað er á sjö til átta metra dýpi. VÍSIR

„Leit stendur yfir, maðurinn er ekki fundinn,“ sagði Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í morgun um leitina að manninum sem er talinn hafa fallið ofan í sprungu í Grindavík í gær.

<>

„Það hafa sigmenn farið niður í körfu, tveir í senn,“ segir Úlfar um fyrirkomulag leitarinnar í nótt. „Og leit fer fram á sjö til átta metra dýpi í sprungunni.“

Hann segir lítið meira hægt að segja að svo stöddu.

Spurður um stærð leitarsvæðisins; breidd sprungunnar, segir Úlfar hana fara breikkandi því sem neðar dregur.

„Og fyrir neðan, hvað eigum við að segja… vinnusvæði björgunarmanna er vatn.“

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sagði í samtali við fréttastofu í gær að aðstæður á svæðinu væru mjög erfiðar og stöðugt væri verið að meta öryggi þeirra sem kæmu að leitar- og björgunaraðgerðum.

Þá var búið að boða út mannskap til leitar bæði í nótt og núna í morgun.

Lögreglu var tilkynnt um það klukkan ellefu í gærmorgun að maður hefði fallið ofan í sprungu í Grindavík. Þó varð enginn vitni að slysinu. Hafði maðurinn verið að vinna við að fylla í sprunguna til að tryggja umhverfi hennar og hús sem stendur við hana. Greint var frá því um hádegisbil að svoköllð jarðvegsþjappa hefði fundist í sprungunni.

Heimild: Visir.is