„Við erum mjög spennt fyrir þessari fjárfestingu í sundlauginni,“ segir Sara Elísabet Svansdóttir, sveitarstjóri á Vopnafirði.
Fjárhagsáætlun bæjarins fyrir næsta ár gerir ráð fyrir að 276 milljónum króna verði varið í ýmiss konar framkvæmdir og endurbætur. Þar af eru 50 milljónir króna eyrnamerktar sundlauginni í Selárdal.
Sara segir að sveitarstjórnin hafi látið vinna fyrir sig tillögu og kostnaðaráætlun vegna endurbóta á sundlauginni árið 2021 og verður byggt á þeirri tillögu í fyrirhuguðum framkvæmdum.
Í þeirri tillögu er gert ráð fyrir að búningsklefar verði bæði stækkaðir og endurgerðir auk þess að pottum við laugina verði fjölgað.
Styrkur til jarðhitaleitar
Áætlað er að framkvæmdir hefjist haustið 2024 og standi fram á vor 2025. Þannig dreifist kostnaður á tvö fjárhagsár.
„Við áttum okkur ekki á því hvað þarf að loka lengi en planið er að loka allavega næsta haust svo hægt sé að halda sumaropnuninni óbreyttri áður en hafist verður handa við endurbætur.“
Meðal annarra verkefna hjá Vopnfirðingum á næsta ári verður endurnýjun skólalóðar og viðhald húsnæðis skólans.
Eins verður aðstaða í íþróttahúsi endurbætt og hefja á hönnun á líkamsræktaraðstöðu í nýrri viðbyggingu íþróttahússins. Um 100 milljónum króna verður varið í lengingu á hafnarkanti í bænum. Fjárfest verður í vatnsveitu í Vesturárdal fyrir 18,5 milljónir.
„Svo fengum við styrk til jarðhitaleitar upp á 40 milljónir króna. Vonandi kemur eitthvað gott úr því,“ segir Sara.
Heimild: Mbl.is