Home Fréttir Í fréttum Tvær friðaðar kirkjur á Fellsströnd þarfnast töluverðs viðhalds

Tvær friðaðar kirkjur á Fellsströnd þarfnast töluverðs viðhalds

85
0
Dagverðarneskirkja stendur yst á Fellsströnd. Í henni er hvorki hiti né rafmagn og þegar enginn var eftir í sókninni var hún sameinuð Staðarfellssókn. Byggingin er friðuð en þarfnast töluverðs viðhalds. skjáskot – Gréta Sigríður Einarsdóttir

Tvær kirkjur á Fellsströnd í Dölum þarfnast mikils viðhalds. Víða á landinu eru fámennar sóknir í vandræðum með að fjármagna nauðsynlegar framkvæmdir á friðuðum byggingum.

<>

Í Staðarfellssókn á Fellsströnd í Dölum eru tvær friðaðar kirkjur sem þarfnast verulegs viðhalds. Algengt er að sóknargjöld í fámennum sóknum standi ekki undir viðhaldskostnaði kirkna.

Dagverðarneskirkja er byggð árið 1934, úr viðum eldri kirkju frá 1848, yst á Fellsströnd. Í henni er hvorki hiti né rafmagn og hluti af gólfinu er farinn að síga. Bára Sigurðardóttir, formaður sóknarnefndar, segir þó hægt að bjarga byggingunni. „Það þarf að lyfta henni upp af sökklinum. Það þarf að steypa undir, það þarf náttúrulega að klæða hana að utan og skipta um glugga.“

Kirkjumunir, meðal annars tvær altaristöflur frá 18. öld, verða færðar í geymslu á meðan. Árið 1934 kostaði kirkjubyggingin 4700 krónur en fyrirhugað viðhald verður talsvert dýrara. „Þetta er náttúrulega þónokkuð verkefni og kostar mikið, segir Bára. „En vonandi fáum við styrki.“

Fjórtán kirkjur en færri en þúsund íbúar
Innar á Fellsströnd stendur Staðarfellskirkja, byggð 1891. Þegar meðferðarstöð var rekin á Staðarfelli var hún ein mest sótta kirkja landsins, og fékk 12.000 heimsóknir á ári. „Hún þarf viðhald mikið,“ segir Bára. „Það eru gluggar og grunnurinn, það er farið að fúna undir henni er mér sagt.“

Í öllu Dala- og Reykhólasveitarprestakalli eru færri en þúsund íbúar en samtals fjórtán kirkjur. Snævar Jón Andrésson, sóknarprestur, segir allflestar þeirra þarfnast viðhalds, þó mismikið.

„Ef við byrjum ekki, þá gerist ekki neitt“
Í Dagverðarkirkju var messað einu sinni á ári þar til heimsfaraldur reið yfir. Snævar segir standa til að halda því áfram. „Hugmyndin er að halda messu þar einu sinni ári því söfnuðurinn hefur hreinlega ekki efni á því heldur að halda þar messu oftar yfir árið, því það þarf að borga kór og organista og annað slíkt.“

Snævar segir verðmæti kirkjanna fyrst og fremst felast í samfélaginu. Fólkið vilji halda kirkjunum sínum við. „Ég sem prestur vil ekki horfa á þetta praktískt, ég vil horfa á þetta tilfinningalega náttúrulega. en það þarf líka að líta á þetta praktískum augum. Miðað við hvað er hægt að gera.“

Í Staðarfellssókn er 21 sóknarbarn og voru tekjur sóknarinnar af sóknargjöldum 267.805 krónur. Bára segir fjármögnun kirkjuviðhalds verða þungt í vöfum en að einhvers staðar verði að byrja. „Við verðum að byrja. Ef við byrjum ekki, þá gerist ekki neitt.“

Heimild: Ruv.is