Home Fréttir Í fréttum Fær­eyingar fagna fjórðu neðansjávargöngunum

Fær­eyingar fagna fjórðu neðansjávargöngunum

95
0
Bæjarstjóri Sköpunar á Sandey notaði grindarhvalahníf til að skera á borðann. KRINGVARPIÐ

Færeyingar fögnuðu í vikunni enn einni samgöngubyltingunni, Sandeyjargöngum, ellefu kílómetra löngum neðansjávargöngum milli Straumeyjar og Sandeyjar.

<>

Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá myndir Kringvarps Færeyja frá opnun Sandeyjarganga, sem fagnað var að viðstöddu fjölmenni með söng, hljóðfæraslætti og afhjúpun listaverks sem og með ræðuhöldum ráðamanna.

Neðansjávargöng Færeyja. Þau nýjustu, Sandeyjargöngin, tengja Sandey og Straumey.
GRAFÍK/HJALTI FREYR RAGNARSSON

Þetta eru fjórðu neðansjávargöngin sem Færeyingar taka í notkun á aðeins 21 ári. Áður höfðu þeir grafið Vogagöng, Norðureyjargöng og Austureyjargöng.

Sandeyjargöng sem bættust við í dag liggja undir Sköpunarfjörð milli Straumeyjar og Sandeyjar og ná 155 metra undir sjávarmál. Þau eru alls 10,8 kílómetra löng, um fjögurhundruð metrum styttri en lengstu göng Færeyja, Austureyjargöngin, sem opnuð voru fyrir þremur árum.

Svona opnast göngin á Sandey.
LØGMANSSKRIVSTOVAN

Lögmaður Færeyja, Aksel V. Johannesen, sagði að Sandeyingar hefðu vart getað fengið betri og mikilvægari jólagjöf. Hann rifjaði upp að þegar hann sem ungur drengur var að fara í fótboltaferðir frá Klakksvík til að keppa við Sandeyinga hafi þurft að taka þrjár ferjur og ferðalagið kallað á gistingu. Núna væru þrenn neðansjávargöng búin að leysa af ferjurnar þrjár og hægt aka á milli á einni klukkustund.

Aksel V. Johannesen, lögmaður Færeyja, flutti ávarp við opnun jarðganganna. KRINGVARPIÐ

Það var bæjarstjóri sveitarfélagsins Sköpunar á Sandey, Gerhard Lognberg, sem formlega opnaði göngin en til að skera á borðann notaði hann grindhvalahníf. Elsti bílstjórinn á Sandey, hinn níræði Herman Petersen úr Skálavík, fékk svo þann heiður að aka fyrsta bílnum í gegn.

Mannhaf fylgdist með þegar Sandeyjargöngin voru opnuð í vikunni.
KRINGVARPIÐ

Kostnaður við gerð ganganna er um þrjátíu milljarðar íslenskra króna og verða þau greidd upp með vegtolli sem samtengdur verða vegtolli Austureyjarganga. Jafnframt hlýst verulegur sparnaður með því að ferjusiglingum milli Straumeyjar og Sandeyjar verður núna hætt.

Heimild: Visir.is