Home Fréttir Í fréttum Gæti tekið fjögur ár að reisa Hvammsvirkjun

Gæti tekið fjögur ár að reisa Hvammsvirkjun

71
0
– Guðmundur Bergkvist

Forstjóri Landsvirkjunar fagnar niðurstöðu Umhverfisstofnunar um heimild fyrir framkvæmdum í Þjórsá. Með heimildinni er Hvammsvirkjun skrefinu nær því að verða að veruleika.

<>

Forstjóri Landsvirkjunar fagnar áformum Umhverfisstofnunar um að veita heimild fyrir virkjanaframkvæmdum í Þjórsá.

Í gær kynnti Umhverfisstofnun áform um að veita heimild um breytingu á vatnshlotinu Þjórsá 1, vegna framkvæmda við 95 MW Hvammsvirkjun.

„Það er mjög jákvætt að sjá þessi drög að niðurstöðu frá Umhverfisstofnun,“ segir Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar. „Þetta ætti þá að gera það að verkum að við komumst fljótlega af stað í verkefnið.“

Í sumar felldi Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála virkjanaleyfi fyrir Hvammsvirkjun úr gildi. Landsvirkjun getur nú sótt aftur um virkjanaleyfi hjá Orkustofnun, og þarnæst um framkvæmdaleyfi hjá sveitarfélögum.

Hörður segir að mikil eftirspurn sé eftir raforku á Suðurlandi, bæði vegna fólksfjölgunar og orkuskipta. „Kerfin hjá [Landsvirkjun] eru alveg fullnýtt á Suðurlandi.“

Fáist leyfin geti framkvæmdir hafist næsta vor.

„En það þarf að hafa í huga að eftir að öll leyfi eru komin getur þetta tekið fjögur ár að reisa svona virkjun. Þetta er gríðarlega mikil framkvæmd og flókin. Þannig þetta getur tekið fjögur ár eftir að svona leyfi eru komin,“ segir Hörður Arnarson.

Heimild: Ruv.is