Home Fréttir Í fréttum Óvíst hvort nýr viti verði settur upp á Gjögri

Óvíst hvort nýr viti verði settur upp á Gjögri

105
0
Gjögurviti féll í hvassviðri á föstudaginn. Hann hafði staðið í rúma öld en óvíst er hvort tilefni sé til að reisa nýjan vita á Gjögri. Aðsend – Jón Guðbjörn Guðjónsson

Óvíst er hvort nýr viti verði settur upp á Gjögri í Árneshreppi eftir að Gjögurviti féll í hvassviðri á föstudag. Þetta segir upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

<>

Gjögurviti hafði staðið í rúma öld þegar hann lét í lægra haldi fyrir náttúruöflunum á föstudag. Hann var 24 metrar á hæð, og reistur árið 1921. Stálgrindin var orðin verulega ryðguð og var bannað að fara upp í hann síðustu ár.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, sem heldur utan um vita landsins, segir í samtali við fréttastofu að strax verði farið í að meta stöðuna.

„Við förum fyrst í að hreinsa svæðið og aftengja rafmagn svo ekki hljótist hætta af,“ segir hann.

Þrátt fyrir að vitað hafi verið í hvað stefndi hafi Vegagerðin ekki lagt áherslu á að halda vitanum við, þar sem óvíst væri hvort þörf væri á nýjum vita.

„Það var vitað að það borgaði sig ekki að halda þessum vitum við, nema þeim sem eru friðaðir.“

Eftir að gengið hefur verið frá braki vitans á Gjögri hyggst starfsfólk Vegagerðarinnar ráðast í mat á því hvort þörf sé á nýjum vita á Gjögri og þá hvernig það verði leyst, eftir atvikum.

Jón Guðbjörn Guðjónsson, vitavörður á Gjögri, sagði í fréttum í gær að honum þætti eftirsjá af vitanum og vonaðist til að nýr viti yrði reistur, enda séu mörg sker þarna við ströndina.

„Ég held að sjófarendur vilji það líka því að þó að það séu komin önnur siglingatæki í skipin og bátana er það allt öðruvísi. Ég veit ekki hvað verður gert, en ég myndi vilja sjá vita þarna áfram.“

Heimild: Ruv.is