Fyrirhugað er að fyrstu íbúðirnar í nýju hverfi, Gróttubyggð á Seltjarnarnesi, fari í sölu fljótlega eftir áramót. Mikill áhugi er á íbúðum í hverfinu að sögn verktakans.
„Þetta er nokkurn veginn eftir áætlun, merkilegt nokk. Við byrjum að selja í janúar eða febrúar og afhendum fyrstu íbúðirnar seinnipart næsta sumars,“ segir Gylfi Gíslason framkvæmdastjóri Jáverks.
Eftirsótt svæði til búsetu
Í Gróttubyggð er ráðgert að um 170 íbúðaeiningar verði alls og þar muni um 500 manns búa. Jáverk byggir hluta hverfisins og í þessum fyrsta áfanga eru tvö fjölbýlishús með 24-26 íbúðum og þrjú fjórbýlishús. Fjölbýlishúsin eru neðst í hverfinu og blasa við þegar keyrt er áleiðis að hinu vinsæla útivistarsvæði við Gróttu.
Gylfi segist sjá fyrir sér að Jáverk byggi sín hús í þessum hluta hverfisins í þremur áföngum. Ekki liggi endanlega fyrir hversu mikið verði byggt í næsta áfanga en þau hús verða ofar í hverfinu.
Ekki er enn komið að því að rífa iðnaðarhúsnæði sem enn stendur á mörkum hinnar nýju Gróttubyggðar. „Við erum ekki alveg búnir að fastsetja hversu stór næsti áfangi verður en þar verða minni hús en við erum að byggja nú,“ segir Gylfi.
Mikil eftirspurn er eftir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu og kveðst Gylfi ekki hafa farið varhluta af því. „Hann er auðvitað skrítinn þessi húsnæðismarkaður en ég hef aldrei séð lengri lista yfir áhugasama en um þetta hverfi. Enda er þetta frábær staður, eitt af síðustu óbyggðu svæðunum á Seltjarnarnesi, sem er mjög eftirsótt til búsetu.“
Heimild: Mbl.is