Í ljós hefur komið að sundlaugakarið í sundlaug Stokkseyrar er mjög illa farið eftir 31 ára notkun.
Sveitarfélagið Árborg lokaði sundlauginni þann 1. nóvember í sparnaðarskyni og á lokunartímanum átti að vinna að viðhaldi laugarinnar.
Nú er ljóst að fara þarf í umfangsmiklar viðgerðir á kari sundlaugarinnar á Stokkseyri, þar sem skipta þarf um allar hliðar á lauginni ásamt botni og dúk.
Í tilkynningu frá Árborg segir að framkvæmdir séu hafnar en vegna umfangs skemmdanna er óljóst hvenær þeim lýkur.
Einnig verður farið í að mála potta og hugað verður að viðhaldi á öðrum þáttum á lóð og húsi sundlaugarinnar.
Heimild: Sunnlenska.is