Home Fréttir Í fréttum Byrja að rífa Íslandsbankahúsið fyrir áramót

Byrja að rífa Íslandsbankahúsið fyrir áramót

282
0
Reiturinn við hlið Íslandsbankahússins hefur að mestu verið byggður upp á síðustu árum. Þar voru áður höfuðsstöðvar Strætó. – Kristinn Þeyr Magnússon

Niðurrif Íslandsbankahússins á Kirkjusandi í Reykjavík hefst væntanlega fyrir áramót og á seinni hluta næsta árs verða byggðar yfir 200 íbúðir á lóðinni. Nú er hægt að fara að hefjast handa, segir framkvæmdastjóri Íslandssjóða.

<>

Íslandsbankahúsið á Kirkjusandi hefur staðið autt og yfirgefið um árabil, en þetta hús hefur í áranna rás hýst starfsemi frá frystihúsi yfir í banka, var einu sinni höfuðstöðvar Sambands íslenskra samvinnufélaga en sögu hússins er endanlega lokið og það rifið enda mygla og fleira í húsinu.

„Já, nú liggja samningar við verktaka fyrir. Þeir voru kláraðir í vikunni í kjölfarið á opnu útboði sem að við héldum í október.

Þar bárust fimm tilboð í verkið og við gengum í framhaldinu til samninga við þann aðila sem var með hagstæðasta tilboðið og nú er það klárt. Þannig að nú er hægt að fara að hefjast handa,“ segir Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða.

Bankinn byggir ekki á lóðinni
Samið var við Afltak, en að sögn Kjartans er niðurrifið flókið ekki síst vegna myglunnar, en verkfræðistofan Efla kemur að verkinu hvað það varðar.

Kjartan segir verkið kostnaðarsamt en vill ekki gefa upp kostnaðinn. Núna þurfi verktakinn að sækja um leyfi til niðurrifs til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Kjartan vonast til að niðurrifið hefjist fyrir áramót og því verði lokið um eða upp úr miðju næsta ári. Þá ætti lóðin að vera tilbúin til uppbyggingar en samkvæmt deiliskipulagi verða byggðar yfir 200 íbúðir á lóðinni, en bankinn mun ekki sjá um það.

„Nei, Íslandsbanki mun ekki byggja þetta. Íslandsbanki mun selja lóðina þegar hún er tilbúin til uppbyggingar.“

Heimild: Ruv.is