Home Fréttir Í fréttum Ölfus í viðræður um kaup á búnaði Hamarshallarinnar sem sprakk

Ölfus í viðræður um kaup á búnaði Hamarshallarinnar sem sprakk

64
0
Elliði segir aðstæður aðrar í Þorlákshöfn. Til dæmis minni sviptivinda.

Ölfus í viðræður um kaup á búnaði Hamarshallarinnar sem sprakk í óveðri – Aðstæður séu aðrar á Þorlákshöfn

<>

Bæjarstjórn Ölfus skoðar nú að byggja loftborið íþróttahús á Þorlákshöfn og hefur kannað vilja Hveragerðis til að selja þeim sinn búnað.

Hin loftborna Hamarshöll í Hveragerði fauk í miklu óveðri í febrúar árið 2022 og hefur ekki verið endurreist. Í verkfræðiskýrslu var hún sögð tifandi tímasprengja.

Að sögn Elliða Vignissonar, bæjarstjóra Ölfuss, þá er búið að skipa stýrihóp sem er að kanna hinar ýmsu byggingarleiðir fyrir íþróttafélagið Ægi.

Ekki sé búið að gera neina samninga við framleiðendur en loftborið hús sé möguleiki sem er verið að kanna.

Minni sviptivindar í Þorlákshöfn
Afdrif Hamarshallarinnar fælir bæjarstjórnina ekki frá. „Ég held nú að reynsla þeirra hafi verið góð af þessu húsi,“ segir Elliði um Hvergerðinga. „Þó að það hafi komið fyrir þetta foktjón þá telja framleiðendur að aðstæður hjá okkur kunni að vera mjög heppilegar til að vera með loftborið hús.“

Nefnir hann að aðstæður séu alltaf eitthvað mismunandi. Ólíkt Hveragerði séu engin fjöll nærri Þorlákshöfn og þannig minna um sviptivinda.

„Þetta er ein af þeim leiðum sem við erum að skoða,“ segir Elliði og nefnir að reynslan á Hveragerði sýni að kostnaður við byggingu loftborins húss sé margfalt minni en við byggingu annars konar húsa.

„Það hefur orðið talsverð framþróun í þessu á þessum tíu árum sem húsið var sett upp í Hveragerði,“ segir hann.

Til í viðræður
Bæjarstjórn Hveragerðis lét bóka það á fundi fyrir helgi að fela Geir Sveinssyni bæjarstjóra að ræða við Ölfus um hugsanlega sölu. Alda Pálsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í minnihluta, lýsti sig andstæða þessum viðræðum.

Ný bæjarstjórn Hveragerðis ákvað að endurreisa ekki Hamarshöllina. Mynd/Hamar

„Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun í íþróttahúsamálunum hjá okkur. Þá tel ég ágætt að við séum ekki að selja ef við gætum notað þetta,“ segir hún. „Þetta er það ódýrasta sem við gætum gert til að koma skjóli yfir íþróttaiðkun. Megnið af búnaðinum er til. Það þyrfti aðeins að endurnýja dúkinn og tryggingarnar bættu hann.“

Svört skýrsla
Hamarshöllin var reist árið 2012 og var rúmlega 5 þúsund fermetrar að stærð með lofthæð upp á 15 metra. Kostnaðurinn við byggingu þess var 300 milljónir króna sem eru tæplega 470 milljónir á verðlagi dagsins í dag. Þar inni voru knattspyrnuæfingar, fimleikaæfingar og golfæfingar eldra fólks.

Eftir að höllin fauk hugðist þáverandi meirihluti Sjálfstæðismanna panta annan dúk og endurreisa hana. En meirihlutinn féll í sveitarstjórnarkosningunum og nýr meirihluti Framsóknarflokks og Okkar Hveragerðis ákvað að endurreisa hana ekki.

Í skýrslu Verkís sem gerð var um Hamarshöllina segir að húsið hafi verið orðið mjög laskað áður en það hafi hreinlega sprungið. Togþolið í dúknum hafi verið um 40 prósentum minna en gefið var upp af framleiðanda.

Arnar Ingi Ingólfsson formaður skipulags og mannvirkjanefndar bæjarins sagði að það væri glapræði að byggja sams konar uppblásið hús. Húsið hefði verið tifandi tímasprengja.

Heimild: Dv.is