Ný tegund af hitaveitulögnum gæti gert hagkvæmt að dreifa heitu vatni víðar en nú er gert. HEF veitur notast við sveignaleg plaströr í stað stálröra til að leggja heitt vatn út í Eiða en það dregur úr kostnaði og fer betur með landið.
Heitavatnslind Héraðsbúa er undir Urriðavatni í Fellum og þar vinna HEF veitur heitt vatn fyrir Egilsstaði, Fellabæ og nágrenni. Úr öflugustu borholunni er dælt 70 lítrum á sekúndu en hægt er að ná meira úr holunum og tengja fleiri.
Nú er verið að leggja yfir 12 kílómetra lögn frá Egilsstöðum, út Eiðaþinghá til Eiðastaðar og alla leið í sumarhúsabyggð við Eiðavatn.
Á Eiðum er talsvert húsnæði ekki síst í gamla Alþýðuskólanum þar sem nú er byggð upp ferðaþjónusta. Lagnir verða brátt komnar í um 40 byggingar en þegar gægst er í rörin vekur athygli að í þeim er ekkert stál.
Í staðinn fyrir stutt stálrör eru notuð einangruð pexrör frá Austurríki sem koma í löngum rúllum og það flýtir mjög fyrir.
Verktíminn margfalt styttri
„Þessi aðferð hefur skilað því að verktími er umtalsvert styttri heldur en með hefðbundinni aðferð með stálrörum. Verktími hefur styst úr því að vera 6-8 mánuðir í um það bil tvo eða tvo og hálfan.
Þetta þýðir eitthvað lægri kostnað. Efnið er dýrara en stálrörin en það vinnst upp með styttri verktíma,“ segir Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri HEF veitna.
Stofnlögnin út í Eiða var lögð síðsumars og kom í ljós hverju munar að leggja 150-300 metra langa barka í stað stálröra sem fást lengst 16 metra löng.
Samsetningar eru að minnsta kosti tíu sinnum færri, rask verður minna og hægt að krækja fram hjá klöppum og hindrunum í landi.
„Rörin eru sveigjanleg og þurfa ekki að liggja í beinum línum eins og stálrörin. Þau fylgja landinu bæði í plani og hæð og framkvæmd verður öll mun einfaldari og þægilegri.
Þetta er mikil framþróun í efnisvali og getur haft áhrif á hagkvæmni þessara lagna upp að vissum stærðarmörkum,“ segir Aðalsteinn.
Auðveldar uppbyggingu á Eiðum
Vonast er til að Eiðaveita komist í gagnið á næstu vikum. Það verður mikill munur þegar lögnin kemst í notkun jafnt fyrir íbúa og sumarbústaðabyggðina, og sömuleiðis er hitaveitan ein af forsendum ferðaþjónustu sem nú er byggð upp í gamla Alþýðuskólanum.
Nú er allt húsnæði á Eiðum rafkynt sem er dýrara en hitaveitan. „Það er von okkar og sveitastjórnar Múlaþings að þetta muni stuðla að uppgangi og endurnýjun Eiðastaðar,“ segir Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri HEF veitna.
Heimild: Ruv.is