Home Fréttir Í fréttum SÚN og SVN leggjast á árar með Nestaki

SÚN og SVN leggjast á árar með Nestaki

172
0
Mynd Nestak ehf

Samvinnufélag útgerðarmanna (SÚN) og Síldarvinnslan (SVN) hafa undirritað samning við byggingafyrirtækið Nestak um kostnaðarþáttöku þeirra við byggingu ellefu íbúða fjölbýlishúss við Sólbakka í Neskaupstað.

<>

Samningurinn felur í sér að SÚN og SVN fjármagna sjö af þeim ellefu íbúðum sem í húsinu verða og segir Björgvin Mar Eyþórsson hjá Nestak þennan stuðning mikilvægan enda hafi verkefnið ekki verið fullfjármagnað þegar fyrsta skóflustunga var tekin í september.

„Allur slíkur stuðningur er mikils virði enda kostar þetta sitt. Samningurinn gengur út á að SÚN fjármagnar fjórar íbúðir og SVN þrjár og þeir greiða okkur sinn hluta vegna þeirra eftir framvindu verksins á hverjum tíma.

Þeir eru sem sagt ekki að kaupa íbúðirnar heldur fá peningana til baka þegar sala fer fram. Ekki er þó loku fyrir skotið að þessir aðilar kaupi einhverjar íbúðanna á einhverjum tímapunkti en það kemur þá í ljós síðar. En allar ellefu íbúðirnar fara í sölu þegar þar að kemur.“

Sem fyrr segir var skóflustunga að fjölbýlishúsinu tekin þann 28. september og segir Björgvin Mar allt hafa gengið að óskum síðan.

„,Við erum að klára uppistöðurnar í þessari viku og við stefnum einbeittir að því að fara að reisa einingarnar í byrjun desember. Þær einingar eru framleiddar uppi á Héraði hjá MVA og eru að mestu tilbúnar svo þær þarf bara að fara að sækja þangað.“

Verkefnið verður formlega kynnt bæjarbúum á Hótel Hildebrand á fimmtudaginn kemur og þangað allir velkomnir.

Teikning af fjölbýlishúsinu að Sólbakka þegar verkinu er lokið en ráðgert er að það verði að fullu tilbúið í lok næsta árs. Nánast öll vinna við húsið er unnin af austfirskum aðilum.

Heimild: Austurfrett.is