Home Fréttir Í fréttum Nærri fjórfalda íbúafjöldann á Ásbrú

Nærri fjórfalda íbúafjöldann á Ásbrú

71
0
Pálmi Freyr Randversson hefur verið framkvæmdastjóri Kadeco í rúmlega þrjú ár og hálft ár. Ljósmynd: Aðsend mynd

Kadeco leitar kauptilboða í byggingarrétt fyrir 150 íbúðir á Suðurbrautarreit á Ásbrú í Reykjanesbæ. Þróunaráætlun svæðisins gerir ráð fyrir að íbúar á Ásbrú verði orðnir um 15 þúsund árið 2050.

<>

Kadeco leitar nú kauptilboða í byggingarrétt fyrir 150 íbúðir á svonefndum Suðurbrautarreit á Ásbrú. Verkefnið er hluti af nýrri Þróunaráætlun Kadeco, K64.

Kaupandi mun vinna deiliskipulag fyrir svæðið, sem er 3,3 hektarar að flatarmáli, í samvinnu við Kadeco og Reykjanesbæ.

Um er að ræða fyrstu íbúðauppbygginguna sem ráðist er í síðan bandaríski herinn yfirgaf svæðið á Ásbrú fyrir um sautján árum síðan.

Í lýsingu Kadeco á verkefninu segir að gerðar verði kröfur um vandaða skipulagsvinnu sem unnin verði innan ákveðins tímafrests. Gert sé ráð fyrir misháum byggingum, allt að fjögurra hæða, til að tryggja fjölbreytni og 150 íbúðum að lágmarki.

Einnig sé gert ráð fyrir skjólgóðu nærumhverfi, inngörðum og góðum göngutengingum við nærliggjandi svæði. Bílastæði verði aðallega eða eingöngu á yfirborði og deilt á minni svæði, aðgreind með trjágróðri til að falla vel að umhverfinu.

Á meðfylgjandi skissu má sjá hvernig Suðurbrautarreiturinn mun koma til með að líta út að uppbyggingu lokinni.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Þetta er svæði sem var byggt af varnarliðinu á sínum tíma og var í stöðugri þróun á meðan það var með aðsetur á Ásbrú. Síðan fékk íslenska ríkið öll þessi mannvirki afhend þegar varnarliðið yfirgaf landið.

Frá þeim tíma hefur ríkinu tekist að koma öllu íbúðarhúsnæði sem herinn skildi eftir sig í borgaraleg not, sem sagt selt húsnæðið til einstaklinga eða fyrirtækja, t.d. leigufélaga.

Í dag búa um fjögur þúsund manns á Ásbrú, sem er svipaður íbúafjöldi og er í sveitarfélögum á borð við Borgarbyggð og Ísafjarðarbæ,“ segir Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco.

„Núna erum við komin með mjög spennandi þróunaráætlun fyrir svæðið þar sem gert er ráð fyrir þéttingu byggðar og að fyllt verði upp í auðu reitina sem eru til staðar. Á Suðurbrautarreitnum er gert ráð fyrir að verði reistar að lágmarki 150 íbúðir. Sú framkvæmd er í útboðsferli núna.

Að auki eru margir reitir á svæðinu sem við munum bjóða út í framhaldinu,“ bætir hann við.

Heimild: Vb.is