Byrjað er að kortleggja viðbrögð ef eldgos stefnir innviðum á Reykjanesskaga í hættu. Innviðaráðherra segir miklu máli skipta að raforkuflutningskerfið sé öflugt og sérstaklega Suðurnesjalína.
Skjálftavirkni hefur aukist undanfarna daga í og við Fagradalsfjall. Upptök skjálftanna virðast núna vera nær innviðum en í fyrri hrinum sem leiddu til eldgoss. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir að stjórnvöld séu byrjuð að kortleggja hvernig bregðast eigi við ef nauðsyn krefur.
„Já, í raun og veru vegna atburðanna sem við höfum verið að sjá síðastliðin þrjú ár þá hefur verið sett sérstök vinna í gang að bæði greina innviðina með heimaaðlium, sveitarstjórnunum, fyrirtækjunum og með ríkinu og fá utanaðkomandi aðila til að teikna upp hvað hugsanlega getur gerst og hvernig við hugsanlega getum brugðist við því.“
Hann segir að ekki verði ráðið við náttúruna, en hægt sé að reyna að búa sig undir atburði eins vel og hægt er og vonast eftir hinu besta, eins og hafi verið reyndin hingað til. Orkuver HS Orku í Svartsengi er ekki langt undan og spurning hvað tæki við ef það færi.
„Menn eru að reyna að teikna upp þær viðbragðsáætlanir, en auðvitað er það þannig að ef það allt færi á versta veg þá er auðvitað kalt vatn, hiti og rafmagn þarna undir. Þess vegna hefur auðvitað skipt mjög miklu máli að, annars vegar að geta lagt raflínur til þess að búa til eins mikið raforkuöryggi eins og hægt er, eins og Suðurnesjalínu.
Auðvitað er mikilvægt eins og hægt er að átta sig á því hvar er hægt að sækja þá neysluvatn að öðru leyti. Og síðan að viðhalda hita, sem væri auðvitað hægt með rafmagni. Þetta eru svona sviðsmyndir sem þú þarft að undirbúa þig undir en við getum hins vegar kannski ekki verið tilbúin á hverri stundu fyrir hvaða viðburð sem er, innst inni verðum við líka að vonast eftir að þeir verði ekki okkur of stórir.“
Sigurður Ingi segir æðruleysi íbúa á svæðinu mikið. Ekki hafi komið til tals að loka Bláa lóninu á meðan skjálftahrinan gengur yfir, en almannavarnir meti hættuna. Hér á landi séum við vel sett með góða vísindamenn og öflugt almannavarnakerfi.
Heimild: Ruv.is