Home Fréttir Í fréttum Sérleyfi til uppbyggingar við Jökulsárlón mögulega boðið út

Sérleyfi til uppbyggingar við Jökulsárlón mögulega boðið út

67
0
Hátt í milljón ferðamenn skoða Jökulsárlón á hverju ári. RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Til greina kemur að bjóða út sérleyfi til uppbyggingar á grunnþjónustu við Jökulsárlón. Þar með gæti einkafyrirtæki fengið tækifæri til að hagnast og auka tekjur á svæðinu. Hornfirðingar vilja sjálfir hreppa hnossið.

<>

Jökulsárlón á Breiðamerkursandi er einn vinsælasti ferðamannastaður á landinu, fast við þjóðveg eitt, og hátt í milljón ferðamenn koma þar við á ári og taka mynd af sér með íslenskum jökulmolum.

20 aðilar sýndu málinu áhuga
Ríkið á landið og Vatnajökulsþjóðgarður er byrjaður að rukka fyrir bílastæði og salerni en aðstaðan þykir frumstæð og ófullnægjandi. Stjórnvöld láta nú vinna úttekt á því hvaða rekstrarform henta best við lónið og hvort réttast væri að rétta einkaaðilum rekstur og uppbyggingu á aðstöðu. Tuttugu skiluðu inn göngum í sérstaka markaðskönnun.

Jökulsárlón er í sveitarfélaginu Hornafirði og þar vilja menn sjá betri aðstöðu.

Við fögnum því að loksins skuli eiga að byggja upp aðstöðu við þennan fjölfarna ferðamannastað og þessa miklu náttúruperlu. Því að það er mikið þörf á að bæta aðstöðuna þar, segir Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Ljúka þurfi úrbótum í salernismálum óháð mögulegu sérleyfi
Sérstaklega þarf að bæta salernismálin. Engin salerni eru neðan við veg þar sem ís úr lónum skolar upp í fjöru.

Jafnvel þó að það sé á döfinni að fara í einhvers konar rekstrarform á uppbyggingu á aðal bílastæðinu sem er við lónið þá er mjög brýnt að fara strax í salernismálin sem eru fyrir neðan veg í því sem kallast Diamond beach. Og það þarf að gera strax og það má vera óháð uppbyggingunni sem er fyrir norðan veginn, segir Sigurjón.

Heimamenn vilja safna tveimur milljörðum
Hornfirðingar eru að stofna fasteignafélag sem vill blanda sér í slaginn um hver fær mögulegt sérleyfi til uppbyggingar við lónið. Undir hatti Ferðamálafélags Austur-Skaftafellsýslu hefur fjöldi fólks og fyrirtækja lofað hlutafé fyrir hátt í milljarð og er stefnt á annað eins. Markmiðið er að ágóði af uppbyggingunni verði eftir í heimabyggð.

Það skiptir okkur geysilega miklu máli að þær ákvarðanir sem verða teknar um uppbyggingu á Jökulsárlóni séu þannig að það raunverulega styrki byggðina og nærsamfélagið hérna í Hornafirði, segir Sigurjón Andrésson bæjarstjóri.

Heimild: Ruv.is