Frárein sem leiðir af Reykjanesbraut og inn á Álfabakka er illa merkt og augljós slysagildra, segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Verið er að ganga frá vegi sem liggur frá aðrein Reykjanesbrautar og að nýju húsnæði Garðheima við Álfabakka 6, en sökum slæmra merkinga stafar mikil hætta af veginum. Forvarsmenn verslunarinnar hafa lýst yfir áhyggjum af stöðu mála.
„Menn koma náttúrulega á miklum hraða af Reykjanesbrautinni og fara inn á þessa þröngu aðrein og inn á Álfabakka þar sem er lítill hraði og tvístefna, en í raun er þetta það illa merkt að menn halda að þetta sé einstefna, þannig þetta eru í raun tvær slysagildrur ekki bara ein,“ sagði Kjartan í samtali við mbl.is.
Í gær lagði Kjartan fram tillögu á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur sem sneri að þessu máli.
Tillagan er svohljóðandi:
„Lagt er til að ráðist verði í tafarlausar úrbætur á frárein af Reykjanesbraut inn á Álfabakka. Nú eru gatnamót fráreinarinnar við Álfabakka ruglingsleg og augljós slysagildra. Lagfæra þarf gatnamótin og bæta merkingar við þau. Einnig þarf að gera úrbætur á Álfabakka, milli umræddrar fráreinar og Árskóga. Meðal annars þarf að merkja miðlínu og fjarlægja merkingar, er gefa til kynna að þar sé um einstefnu að ræða, sem skapar einnig slysahættu.
Í seinustu viku greindi Morgunblaðið frá malarhaugum í nágrenni við Álfabakka sem hafa verið íbúum í nágrenninu til ama.
Heimild: Mbl.is