Home Fréttir Í fréttum Nýr kafli með bundnu slitlagi að opnast á Dynjandisheiði

Nýr kafli með bundnu slitlagi að opnast á Dynjandisheiði

86
0
Bundið slitlag var lagt á nýja kaflann á Dynjandisheiði um síðustu helgi. VERKÍS/JÓHANN BIRKIR HELGASON

Stefnt er að því að nýr vegarkafli á Dynjandisheiði með bundnu slitlagi verði tekinn í notkun eftir næstu helgi. Kaflinn er 3,5 kílómetra langur og liggur um hæsta hluta fjallvegarins milli núverandi slitlagsenda við Norðdalsá, norðan Bíldudalsgatnamóta, og Vatnahvilftar neðan Botnshests ofan Geirþjófsfjarðar.

<>

Kaflinn er hluti af 12,6 kílómetra löngu verki sem Suðurverk hóf að vinna fyrir rúmu ári. Að norðanverðu nær verkið að sýslumörkum Ísafjarðar- og Barðastrandarsýslna. Framkvæmdatími er áætlaður tvö ár og gert ráð fyrir verklokum um miðjan júlí á næsta ári.

Nýr kafli vegarins þar sem hann liggur af háheiðinni og niður í Vatnahvilft undir Botnshesti.
VERKÍS/JÓHANN BIRKIR HELGASON

Tvísýnt var fyrr í haust hvort næðist að leggja bundið slitlag á kaflann fyrir veturinn. Góður veðurgluggi myndaðist þó fyrir helgi, með uppundir tíu stiga hita í 500 metra hæð yfir sjávarmáli, að sögn Einars Arnar Arnarsonar, sviðsstjóra klæðningarsviðs Borgarverks, og tókst að leggja fyrri umferð klæðningar á föstudag og laugardag. Svo gott var veðrið að menn sáust um tíma vinna berir að ofan í logni.

Tjaran lögð út í veðurblíðu í 500 metra hæð á Dynjandisheiði um síðustu helgi.
VERKÍS/JÓHANN BIRKIR HELGASON

„Þetta verður opnað líklega á þriðjudag,“ segir Jóhann Birkir Helgason, eftirlitsmaður Verkís fyrir Vegagerðina á Dynjandisheiði. Áður þurfi þó að setja upp vegrið á 550 metra kafla og vonast hann til að það klárist á mánudag.

Jóhann Birkir Helgason, starfsmaður Verkís, er eftirlitsmaður Vegagerðarinnar á Dynjandisheiði.
EGILL AÐALSTEINSSON

Jóhann segir jafnframt stefnt að því að opna annan kafla fyrir jól, þó án klæðningar að sinni. Sá kafli liggur ofan botns Geirþjófsfjarðar, undir Botnshesti, og er 2,5 kílómetra langur.

Áður var búið að leggja bundið slitlag á þrettán kílómetra kafla upp á heiðina frá Flókalundi, um Pennusneiðing, og norður fyrir gatnamótin til Bíldudals.

Við Norðdalsá skammt norðan gatnamótanna til Bíldudals.
VERKÍS/JÓHANN BIRKIR HELGASON

Lokaáfanginn á leiðinni milli Flókalundar og Dynjanda er kaflinn úr Dynjandisvogi og að sýslumörkum á heiðinni. Í samtali fréttastofu við Sigurþór Guðmundsson, verkefnisstjóra Vegagerðarinnar á Dynjandisheiði, í síðasta mánuði kom fram að stefnt væri að útboði þessa kafla á næsta ári og sagði hann að verklok gætu náðst árið 2026.

Verkáfangi Suðurverks á Dynjandisheiði er nærri þrettán kílómetra langur.
GRAFÍK/STÖÐ 2

Heimild: Visir.is