Home Fréttir Í fréttum Brotið á réttindum rúmenskra starfsmanna

Brotið á réttindum rúmenskra starfsmanna

217
0
Mynd: Byggidn.is

Vinnustaðaeftirlit Húss fagfélaganna og Eflingar fór, ásamt fulltrúa frá Bárunni stéttarfélagi, í mars á þessu ári í eftirlitsferð á byggingasvæði á Suðurlandi. Þar fór rótgróinn íslenskur aðalverktaki með umsjón verksins; byggingu aðstöðu fyrir opinberan aðila.

<>

Eftirlitsfulltrúarnir, Adam Kári Helgason frá Húsi fagfélaganna og Þórarinn Smári Thorlacius frá Bárunni hittu á vettvangi rúmenska starfsmenn undirverkaka. Í ljós kom að enginn þeirra hafði aðgang að launaseðli og þeir vissu ekki hvað þeir höfðu í laun, hvorki fyrir né eftir skatta. Grunsemdir vöknuðu um að brotið væri á réttindum þeirra.

Eftirlitsfulltrúarnir höfðu uppi á aðalverktakanum á svæðinu. Honum var gerð grein fyrir ákvæðum laga um keðjuábyrgð.

Aðalverktaka er í þeim gert skylt að tryggja og bera ábyrgð á að allir starfsmenn, hvort sem um ræðir starfsmenn hans, undirverktaka eða starfsmannaleigna, sem koma að framkvæmd samnings fái laun, starfskjör, sjúkra- og slysatryggingar og önnur réttindi. Aðalverktakinn tók málið föstum tökum.

Tók málið föstum tökum

Í kjölfarið tók við tímabil þar sem ítrekaðar en árangurslausar tilraunir voru gerðar til að fá afhenta launaseðla og önnur gögn frá umræddum undirverktaka. Aðalverktakinn lagði stéttarfélögunum lið með því að halda eftir lokagreiðslu til umrædds fyrirtækis og gerði skýlausa kröfu um að fullnægjandi gögnum yrði skilað til stéttarfélaganna.

Þessi aðferð bar þann árangur að nú í september bárust flest þau gögn sem beðið hafði verið eftir mánuðum saman, meðal annars launaseðlar, tímaskráningar og fyrirkomulag vinnunnar.

Í ljós kom að starfsmönnunum, sem allir eru iðnaðarmenn án sveinsprófs en eru búsettir á Íslandi, hafði verið greitt undir taxta bæði þegar kom að dagvinnu og yfirvinnu.

Ranglega hafði verið staðið að styttingu vinnutíma, desember- og orlofsuppbætur höfðu ekki verið greiddar auk þess sem launamennirnir fengu ekki umsamda kauphækkun þann 1. nóvember 2023. Þá hafði starfsmönnunum ekki verið greitt fyrir akstur.

Aðalverktakinn hefur gert umræddum undirverktaka ljóst að ekki komi til lokagreiðslu fyrr en sýnt hefur verið fram á að gert hafi verið upp við umrædda starfsmenn. Afstaða hans hefur vegið þungt í málinu, sem fylgt verður eftir af fullri hörku allt til enda.

Heimild: Byggidn.is