Home Fréttir Í fréttum Húsnæðisvandinn vex með ári hverju

Húsnæðisvandinn vex með ári hverju

69
0
RÚV – Haraldur Páll Bergþórsson

Finnbjörn A. Hermannsson forseti ASÍ ræddi húsnæðismál í kjölfar bruna við Funahöfða í vikunni í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hann segir vandann vaxa með hverju ári og vill að búseta í iðnaðarhúsnæði verði gerð lögleg til að auðvelda eftirlit.

<>

Finnbjörn A. Hermannsson forseti ASÍ segir húsnæðisvandann á Íslandi vaxa með ári hverju. Hann var gestur morgunútvarpsins á Rás 2 þar sem rædd voru húsnæðismál í kjölfar bruna við Funahöfða í vikunni þar sem einn lést og tveir slösuðust.

Eftir brunann á Bræðraborgarstíg árið 2020 fóru Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, húsnæðis- og mannvirkjastofnun og ASÍ í átak þar sem óörugg búseta var kortlögð. Þá voru rétt um 2000 manns sem bjuggu í iðnaðarhúsnæði en Finnbjörn segir vandann hafa vaxið tvöfalt síðan.

„Það er ekki búin að fara fram talning þannig að við vitum ekki hversu margir eru í iðnaðarhúsnæði núna.“

Hann segir einfaldlega ekki til nægt húsnæði til að anna eftirspurn. „Við náum ekki að halda í við bara eðlilega fjölgun, hvað þá þegar við fáum svona holskeflu af starfandi fólki sem þjóðfélagið þarf á að halda. Það þurfa allir einhvers staðar að búa og þá er farið í þessi iðnaðarhúsnæði sem eru ekki ætluð til búsetu.

Þarf að breyta lögum
Finnbjörn telur mikilvægt að lögum verði breytt svo að búseta í iðnaðarhúsnæði verði lögleg og þannig hægt að hafa hana undir eftirliti. Húnsæðismál verði sett á oddinn í kjarasamningum.

„Við erum búin að boða það að í komandi kjarasamningum verði þetta eitt af stóru málunum sem við setjum á oddinn. Stjórnvöld er stærra heldur bara ríkisstjórnin, það eru sveitarfélögin líka vegna þess að þau eru stór aðili að þessu og þetta er stórt verkefni en ég met stöðuna þannig að við munum ekki standa upp frá kjarasamningum nema þetta sé komið í það horf að við höfum trú á því að þetta muni batna.“

Heimild: Ruv.is