Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur hefur kynnt hugmyndir að 11 nýjum hótelum í borginni. Með þeim myndu nokkur þúsund herbergi bætast við hótelmarkaðinn í borginni.
Dagur ræddi þessi verkefni á opnum fundi um bættar samgöngur sem fram fór í Salnum í Kópavogi síðastliðinn fimmtudag.
Dagur sagði tugmilljarða fjárfestingu hafa átt sér stað í nýrri afþreyingu fyrir ferðamenn í borginni á síðustu árum. Þá vakti hann athygli á því að þegar leiðtogar Evrópuráðsins funduðu í Hörpu í maí sl. hefðu þeir allir gist á hótelum sem voru ekki til þremur árum áður. Þ.e.a.s. á Marriott Reykjavík Edition-hótelinu við Hörpu, Parliament-hótelinu við Austurvöll og Hótel Reykjavík Sögu við Lækjartorg.
„Það er fullt af verkefnum í þróun, líka í þessum fjögurra og fimm stjörnu hópi, sem mun halda áfram að draga hingað betur borgandi ferðamenn,“ sagði Dagur og benti á myndir af hótelum sem sjá má hér að neðan.
Meðal þessara verkefna er fyrirhugað hótel á Kirkjusandi.
Allt að 285 herbergi
Samkvæmt samþykktu deiliskipulagi er stefnt að hótelbyggingu vestast á Kirkjusandi, við sjávarsíðuna gegnt Borgartúni.
Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða og stjórnarformaður 105 Miðborgar, segir nokkra rekstraraðila hafa sýnt áhuga á hótellóðinni. Gert sé ráð fyrir hótelbyggingu með allt að 285 herbergjum sem teljist vera stórt hótel í borginni.
Til samanburðar eru 320 herbergi á Fosshótelinu á Höfðatorgi en það er stærsta hótel landsins í herbergjum talið.
„Það eru viðræður í gangi við nokkra aðila um að reisa hótel á Kirkjusandi,“ segir Kjartan Smári.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Ruv.is