Home Fréttir Í fréttum Efins hvort þeir vilji stækka frekar

Efins hvort þeir vilji stækka frekar

222
0
Helgi Rafnsson, einn stofnenda og framkvæmdastjóri rafholts, telur að félagið sé „draumaeining“ eins og það stendur í dag Ljósmynd: Eyþór Árnason

Eftir öran vöxt undanfarin ár velta eigendur Rafholts nú fyrir sér hvort setja eigi stefnuna á frekari vöxt eða halda sér við núverandi „draumaeiningu“.

<>

tarfsemi Rafholts hefur vaxið hratt á undanförnum árum og er félagið nú það stærsta á íslenska rafverktakamarkaðnum. Velta Rafholts hefur meira en tvöfaldast á síðustu átta árum og nam 3 milljörðum króna í fyrra.

Helgi Rafnsson, einn stofnenda og framkvæmdastjóri Rafholts, segir að árið 2022 hafi verið eitt besta rekstrarár í sögu félagsins og árið 2023 líti enn betur út.

„Sagan okkar er þannig að við höfum alltaf verið réttum megin við núllið. Við erum sex eigendur og erum allir með puttana á púlsinum, fylgjumst vel með og pössum upp á hlutina. Við erum sanngjarnir gagnvart viðskiptavinum og starfsfólki og höfum náð að búa til traust sem hefur skilað okkur góðum árangri,“ segir Helgi.

Einblína á stór verkefni
Spurður hvort aukin umsvif megi rekja til markvissra vaxtaráforma, þá segir Helgi að starfsemin hafi aðallega þróast eftir aðstæðum og út frá góðu orðspori. Verkkaupar sækist gjarnan í að vinna aftur með félaginu og það hafi þannig komist í stöðu til að semja um þátttöku í hinum ýmsu verkefnum.

Meðal stærstu verkefna sem félagið kemur að þessa dagana er stækkun á Flugstöð Leifs Eiríkssonar, stækkun á gagnaveri Verne Global á Ásbrú, umbreytingu á Hótel Sögu og blokkarframkvæmdir á Traðar- og Smárareitunum í Kópavogi. Rafholt er einnig með nokkur hótelverkefni, þar á meðal tvö í miðbæ Reykjavíkur sem klárast bráðlega; Iceland Parliament Hotel á Landsímareitnum og Hótel Reykjavík Saga á Lækjargötunni.

„Við viljum frekar taka að okkur stærri verkefni og einblínum á þau. Við sinnum þó auðvitað öllu og ekkert verk er of lítið.“

Spurður hvort frekari vöxtur sé í vændum hjá Rafholti segir hann að það sé alveg mögulegt. Eftir öran vöxt á síðustu árum sé félagið og eigendur þess þó að meta hvort þeir vilji stækka frekar.

„Við erum nánast fullbókaðir næsta árið. Við erum að velta fyrir okkur hvort við ætlum að stækka eða reyna að halda okkur á þessari braut. Mér sýnist nú að við þurfum ekkert endilega meira álag. Þetta er bara draumaeining eins og hún stendur í dag en maður veit aldrei.“

Á rætur sínar að rekja til varnarsvæðisins
Rafholt var stofnað árið 2002 þegar þrjú fyrirtæki sem höfðu unnið fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli sneru bökum saman. Stofnendurnir – Helgi, Grétar Magnússon og Vilhjálmur M. Vilhjálmsson – höfðu allir verið hluthafar í Keflavíkurverktökum.

„Við stofnuðum Rafholt í framhaldi af því að varnarsvæðið var opnað fyrir almennri verktöku. Áður höfðu allar framkvæmdir verið í höndum ÍAV og Keflavíkurverktaka. Við vorum hluthafar í síðarnefnda félaginu en vorum þó allir í samkeppni. Við ákváðum að breyta um kúrs, vinna saman og snúa okkur að almenna markaðnum sem við höfðum lítið unnið á áður.“

Í upphafi var Rafholt með um tíu starfsmenn en umsvifin jukust nokkuð hratt og var félagið komið með um 70 starfsmenn sex árum eftir stofnun. Í dag starfa um 140 manns hjá Rafholti, þar af eru hundrað í höfuðstöðvunum á Smiðjuvegi í Kópavogi og um fjörutíu í starfsstöð félagsins á Njarðarbraut í Reykjanesbæ.

„Við erum 20 ára gamalt fyrirtæki og það eru nokkrir einstaklingar sem hafa verið með okkur frá byrjun. Það má segja að nú séu ákveðin kynslóðaskipti eða endurnýjun í gangi líkt og eðlilegt er. Okkur hefur gengið rosalega vel að fá gott starfsfólk til liðs við okkur. Við erum með góða aðstöðu og aðbúnað og hugsum bara vel um fólkið okkar. Það held ég að skipti miklu máli.“

Rafholt hefur fengið til sín fjölda nema á undanförnum árum og lagt áherslu á að styðja þá í gegnum námið, t.d. með námskeiðum fyrir sveinspróf. Helgi segir ánægjulegt að sjá fleiri stelpur sækja í iðngreinar og kvenkyns rafvirkjum fari fjölgandi.

„Það er jákvæð þróun og við erum kát með að heilt yfir er fólk tilbúnara að gefa iðnnámi tækifæri. Það hefur orðið vakning fyrir iðnnámi og það virðist minna fara fyrir þessu umrædda foreldravandamáli, þ.e. þegar flestum var beint í stúdentspróf á árum áður. Hvort sem það er rafvirkinn eða önnur iðngrein þá er þetta góður valkostur, bæði faglega og launalega. Ég tel það eiga sérstaklega við rafvirkjann þar sem starfið er orðið svo fjölbreytt og hentar öllum hópum.“

Heimild: Vb.is