Rúmlega 900 íbúðir munu rísa við Hlíðarenda á næstu árum ef áform fjárfesta og skipulagsyfirvalda ná fram að ganga. Með því verða rúmlega 1.600 íbúðir í hinu nýja hverfi og íbúafjöldinn meiri en í Hveragerði.
Uppbyggingin gæti skilað Knattspyrnufélaginu Val milljarða tekjum. Meðal annars hefur Valur óskað eftir leyfi til að fá að breyta hluta æfingasvæðis í lóð undir 245 íbúðir. Jafnframt hefur félagið Hlíðarendi ses., sem er í tæplega 95% eigu Valsmanna hf., sótt um leyfi til að fjölga íbúðum á A-reit úr 67 í 175. Miðað við að lóðarverð sé 12 milljónir á íbúð gæti sala byggingarréttar á þessum tveimur reitum skilað yfir 5 milljörðum króna.
Ef flugvöllur víkur
Bjarg hyggst reisa um 70 íbúðir á I-reit en hönnunin tekur mið af nýju skipulagi Vatnsmýrar. Gert er ráð fyrir að hægt verði að byggja við húsið, samkvæmt skipulagi randbyggðar, ef Reykjavíkurflugvöllur víkur.
Fjárfestar hafa jafnframt sýnt lóðum við Nauthólsveg áhuga en þær eru gegnt Valssvæðinu.
Fyrirtækið Skientia bauð 751 milljón króna í Nauthólsveg 79 í sumar sem leið. Það seldi síðan lóðina til byggingafélagsins MótX. Fátítt er að svo verðmætar lóðir skipti um hendur á svo skömmum tíma. Þá hefur Morgunblaðið sagt frá tilboði fjárfesta í fasteignir Flugbjörgunarsveitar Reykjavíkur. Þar við hlið er bílaleiga Hertz en nýr eigandi hennar segir ótímabært að ræða næstu skref.
Bíða vegna vaxta
Háskólinn í Reykjavík hyggst byggja 148 íbúðir við Nauthólsveg 87 en skólinn er með 253 íbúðir í aðliggjandi húsum. Fulltrúi skólans segir hátt vaxtastig hægja á verkefninu. Hugmyndir voru um heilsugæslu við Hlíðarenda en Skógarhlíð 18 varð fyrir valinu.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is