Framkvæmdum við nýtt snjóframleiðslukerfi í Bláfjöllum mun ekki ljúka í lok þessa mánaðar eins og áætlanir gerðu ráð fyrir.
„Þessu mun seinka aðeins. Ég segi núna þrjár til fimm vikur þannig að um miðjan nóvember held ég að þetta verði tilbúið,“ segir Einar Bjarnason rekstrarstjóri Bláfjalla í samtali við mbl.is.
Hreinsa þarf snjó upp úr skurðum
Segir hann að veðrið undanfarið hafi ekki hjálpað og að snjórinn nú tefji framkvæmdirnar eitthvað.
„Við eigum eftir að loka einhverjum skurðum og færa spennustöðina fyrir svæðið í nýtt hús. Við erum með opna skurði hér út um allt sem við þurfum að byrja á að hreinsa snjóinn upp úr til þess að geta haldið áfram.“
Er allt á kafi í snjó?
„Nei það er nú ekki allt á kafi en það er úrkoma á fullu og ég sé ekki mikið upp í fjall en meirihlutinn virðist vera orðinn hvítur. Maður veit svo ekki hversu langt það nær. Það er að minnsta kosti ófært um svæðið á bíl út af sköflum í augnablikinu,“ segir Einar.
Heimild: Mbl.is