Bygging íbúðarhúsa á Þórshöfn heyrir til tíðinda en íbúðarhúsnæði var síðast byggt fyrir rúmum tíu árum á vegum fyrirtækis. Lengra er þó síðan einstaklingur byggði sér hús eða rúm þrjátíu ár.
Tvö einbýlishús eru nú í smíðum og er þar að verki fyrirtækið Dawid smiður ehf. en eigandinn, Dawid Potrykus, hefur búið á Þórshöfn í fimmtán ár og á hér stóra fjölskyldu.
Húsin tvö eru 80 og 120 fermetrar að stærð, bílskúr er sambyggður stærra húsinu en minna húsið er án bílskúrs. Dawid notar einingar frá Polynorth á Akureyri í sökkulinn og segir það þægilegan byggingarmáta.
„Þetta er eins og legókubbaeiningar, gott að vinna með efnið sem einnig er vel einangrandi“. Hann ásamt sínum mönnum hér heima hefur unnið við byggingarnar.
Húsin sjálf eru úr timbri og Dawid flytur þau sjálfur inn frá Póllandi. Hann reiknar með að stærra húsið verði tilbúið í desember og hitt fljótlega eftir áramót ef veðrið er hagstætt.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út laugardaginn 7. október.
Heimild: Mbl.is