Home Fréttir Í fréttum Bygging nýs hjúkrunarheimilis dregist um þrjú ár

Bygging nýs hjúkrunarheimilis dregist um þrjú ár

107
0
Árið 2020 var haldin samkeppni um hönnun hjúkrunarheimilsins og var það Arkís, í samstarfi við Mannvit, sem hlaut fyrstu verðlaun fyrir bygginguna sem búið er að tölvugera á þessari mynd. RÚV

Samkvæmt áætlun átti nýtt hjúkrunarheimili að rísa á Húsavík 2024. Nú lítur út fyrir að það verði þó ekki íbúðarhæft fyrr en 2027.

<>

Framkvæmdir við hjúkrunarheimili á Húsavík sem til stóð að yrði íbúðarhæft á næsta ári, eru um þremur árum á eftir áætlun. Félagsmálastjóri í Norðurþingi segir þörf aldraðra aukast meðan framkvæmdir tefjist.

Árið 2020 var efnt til hönnunarsamkeppni um nýtt hjúkrunarheimili á Húsavík og í nóvember 2021 var tekin fyrsta skóflustunga að grunni hússins, sem bæjaryfirvöld sögðu að myndi bylta þjónustu við eldra fólk á svæðinu. Ekki aðeins yrðu til 60 ný hjúkrunarrými heldur yrði aðbúnaður starfsfólks og íbúa eins og best yrði á kosið.

Svo leið og beið og nú á síðustu mánuðum ársins 2023 hefur lítið hreyfst á lóðinni síðan grafið var fyrir grunninum fyrir tveimur árum.

Þörfin aukist á meðan framkvæmdir drógust

Hróðný Lund, félagsmálastjóri hjá Norðurþingi, segir ljóst að þörfin fyrir fleiri hjúkrunarrými í sveitarfélagið hafi ekki minnkað á meðan. Fjölmörg dæmi eru um að aldraðir Húsvíkingar þurfi að flytja í önnur sveitarfélög til þess að fá inni á hjúkrunarheimili.

„Það er grundvallaratriði að geta verið í sínu heimasveitarfélagi, hjá sínu fólki og sínum ættingjum og að fá að eiga síðasta ævikvöldið þar sem þú vilt sjálfur búa“, segir Hróðný.

Hjúkrunarheimilið, sem verður yfir fjögur þúsund fermetrar, hefur síðustu ár farið langt fram út kostnaðaráætlun eða úr tveimur komma tveimur milljörðum í yfir fimm milljarða. Þá varð að endurmeta stöðuna og á meðan fóru öll plön á ís.

Útboð næst á dagskrá

Nokkur hreyfing er þó komin á verkið á ný. Sveitarfélögin sem standa að byggingunni; Norðurþing, Þingeyjarsveit og Tjörneshreppur undirrituðu nýja samninga við ríkið í vor. Útboðsgögn fara til Ríkiseigna í vikunni og vonast sveitarfélögin eftir að brátt verði hægt bjóða verkið út.

Ef allt gengur að óskum á verkið að taka um þrjú ár og nýtt hjúkrunarheimili verður risið á Húsavík 2027.

Heimild: Ruv.is