Home Fréttir Í fréttum Nýjar vindmyllur farnar að snúast í Þykkvabæ

Nýjar vindmyllur farnar að snúast í Þykkvabæ

92
0
RÚV – Bragi Valgeirsson

Verið er að gangsetja tvær nýjar vindmyllur í Þykkvabæ í stað tveggja sem voru felldar. Þær nýju eru minni en mun afkastameiri segir stjórnarformaður Háblæs, sem stendur að framkvæmdunum.

<>

Reistar voru tvær vindmyllur á sínum tíma í Þykkvabæ sem báðar eyðilögðust, en nú á að reyna frekar og tvær nýjar hafa verið reistar á nákvæmlega sama stað og er verið að prufukeyra þær. Það kviknaði í annarri þeirra og hin bilaði. Landhelgisgæslan sprengdi aðra niður í nokkrum tilraunum og logskurðarmenn frá Hringrás skáru hina niður.

Þær voru tæplega 60 metra háar og vógu um 60 tonn. Eigandi þeirra fór í þrot og Arion banki eignaðist þrotabúið. Fyrirtækið Háblær var fengið til að taka þær gömlu niður og reisa nýjar sem eru öðruvísi en þær fyrri.

„Í fyrsta lagi eru möstrin, turnarnir, aðeins lægri og stóra breytingin er að þær eru 50% aflmeiri. Þær eru 900 kw hvor, tæpt mw, en hinar gömlu voru 600 kw hvor. Og það er svolítið önnur tækni í þessu sem nýtir vindorkuna betur en gömlu myllurnar. Þessar eru nýjar, hinar voru settar upp notaðar,“ segir Ásgeir Margeirsson stjórnarformaður Háblæs ehf.

Hann segir ekki til skoðunar hvort setja eigi fleiri vindmyllur upp á þessum stað. Ýmsir séu að skoða að setja upp vindmyllur víða um land, en tíminn leiði í ljós fyrir hverjar fáist leyfi.

„En ég helt að það sé einsýnt að við Íslendingar þurfum að nýta vindorkuna í mun meiri mæli en gert hefur verið.“

Orkan sem þessar vindmyllur gefa af sér fer inn á dreifikerfi Rarik, en Háblær er með samning við HS Orku um kaup á orkunni. Hann segir almennt hafi verið talið hagstæðara að vinna orku með vatnsafli eða jarðvarma, en nú sé ljóst að vindorkan sé orðin hagkvæmasti og heppilegasti kosturinn til að framleiða meira af rafmagni með sem minnstum tilkostnaði. Þegar þessar tvær vindmyllur verða komnar í fulla notkun framleiða fjórar vindmyllur raforku inn á dreifikerfið, en Landsvirkjun rekur tvær.

„Það er svolítið sláandi, ef ekki spaugilegt, að segja að tvær litlar vindmyllur sem nú er verið að reisa séu tvöföldun á vindmyllu framleiðslu landsins. En mjór er mikils vísir og ég sé fyrir mér að ef við ætlum að ná okkar markmiðum um að afla orku fyrir samfélagið í náinni framtíð og lengri framtíð og fara í gegnum orkuskiptin sem er jú markmið stjórnvalda, þá þurfum við að nýta kosti í vatnsafli, jarðvarma og vindorku til að ná okkar markmiðum, annars náum við því ekki.“

Heimild: Ruv.is