Home Fréttir Í fréttum Sjö hæða íbúðarhús hjá Norðurtorgi á Akureyri?

Sjö hæða íbúðarhús hjá Norðurtorgi á Akureyri?

274
0
Mynd: Akureyri.net

Meirihluti skipulagsráðs Akureyrarbæjar tekur jákvætt í að þróa áfram hugmynd um byggingu íbúðarhúss á allt að sjö hæðum á horni Austursíðu og Síðubrautar, eða lóð nr. 4 við Austursíðu.

<>

Skipulagsráð tók fyrir á fundi sínum í gær umsókn Baldurs Ó. Svavarssonar, fyrir hönd Klettáss ehf., um heimild til að reisa íbúðarhús á allt að sjö hæðum á áðurnefndri lóð. Þessi áform kalla á breytingu á aðalskipulagi þar sem lóðin er nú skilgreind sem athafnasvæði AT7 í aðalskipulagi.

Mynd: Akureyri.net

Niðurstaða meirihluta skipulagsráðs var að taka jákvætt í að þróa hugmyndina áfram og var skipulagsfulltrúa falið að ræða við umsækjanda um framhald málsins.

Framkvæmdir eru nú þegar hafnar við skrifstofu- og verslunarhúsnæði á norðausturhorni lóðarinnar, norðan verslunarmiðstöðvarinnar, eins og sjá má á myndinni hér að neðan, en væntanlega byggingu má sjá á teikningum sem fylgdu umsókninni um íbúðabygginguna.

Umtalsverðar efasemdir

Í skipulagsráði var þó ekki einhugur um þessa afgreiðslu. Sindri Kristjánsson frá S-lista og Sif Jóhannesar Ástudóttir frá V-lista sátu hjá við afgreiðsluna. Sindri lagði fram bókun við afgreiðslu málsins þar sem hann lýsti umtalsverðum efasemdum um tillöguna og byggði efasemdirnar á nokkrum atriðum.

Sindri bendir á að skipulagsráð hafi áður tekið afstöðu til hugmynda um íbúðauppbyggingu á svæðinu og hafnað umsókn frá fyrri lóðarhafa 2019 með þeim rökum að svæðið væri óhentugt til uppbyggingar þar sem það væri hluti af heildstæðu athafnasvæði sem afmarkaðist af umferðarþungum þjóðvegi.

Mynd: Akureyri.net

Annar ásteytingarsteinn Sindra er að áformin gangi út á að reisa fjölbýlishús sem með ýtrustu óskum umsækjanda yrði eitt það stærsta í bænum, umlukið umferðargötum og bílastæðum verslunarmiðstöðvar. Sindri bendir á að skipulagsyfirvöld verði að huga að því að umhverfi íbúa bæjarins uppfylli lágmarkskröfur varðandi ásýnd, aðbúnað, náttúrufar og fleira.

Þriðja atriðið sem Sindri nefnir er að umferðaraukning um Austursíðu vegna tilkomu verslunarmiðstöðvar Norðurtorgs sé nú þegar umkvörtunar- og áhyggjuefni íbúa á svæðinu. Því telji hann varla á bætandi meðan ekki hafi enn verið gripið til mótvægisaðgerða vegna þeirrar aukningar sem þegar hefur átt sér stað.

Á teikningunni hér að neðan, sem fylgdi umsókninni, má sjá hugmynd að íbúðabyggingu og afstöðu hennar til verslunarmiðstöðvarinnar. Íbúðablokkin er til vinstri á myndinni. Fyrir miðri mynd er fyrirhuguð skrifstofu- og verslunarbygging sem framkvæmdir eru nú þegar hafnar við, en verslunarmiðstöðin Norðurtorg er til hægri. Fyrr í sumar var veitingarými í svörtu byggingunni neðst á teikningunni auglýst til leigu

Heimild: Akureyri.net