Home Fréttir Í fréttum Kæra byggingu hótels sem minnir á eitt frægasta fjall landsins

Kæra byggingu hótels sem minnir á eitt frægasta fjall landsins

311
0
Ljósmynd – Zeppelin

Eigendur jarðarinnar Mýrarhús í Grundarfirði hafa kært ákvörðun bæjaryfirvalda um að samþykkja deiliskipulag fyrir 60 til 80 herbergja hótel sem er innblásið af Kirkjufelli, einu þekktasta fjalli landsins.

<>

Bæjarstjórn Grundarfjarðar samþykkti á fundi sínum í byrjun mars nýtt deiliskipulag fyrir hótel í landi Skerðingsstaða sem á að standa við Lárvaðal, manngert sjávarlón.

Hótelið er hannað af arkitektastofunni Zeppelin og er hönnun þess innblásin af Kirkjufelli sem varð eitt frægasta fjall landsins eftir að hafa verið myndað í bak og fyrir í sjónvarpsþáttunum Game of Thrones.

Þegar deiliskipulag fyrir hótelið var samþykkt setti bæjarstjórn framkvæmdinni 13 skilyrði. Ekki mætti til að mynda hefta aðgengi almennings að Lárvaðli og lágmarka átti sérstaklega hvers kyns truflun sem hótelstarfsemin kynni að hafa á fugla, fiska og annað lífríki við lónið.

Hinum megin við sjávarlónið er jörðin Mýrarhús og eigendum hennar líst illa á fyrirhugaða framkvæmd. Þeir hafa nú kært deiliskipulagið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og krafist þess að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið sé til meðferðar. Kæran var lögð fram á fundi bæjarráðs Grundarfjarðar í vikunni þar sem einnig voru lögð fram drög að svari frá lögmannsstofunni Juris.

Í kærunni kemur fram að landeigendurnir hafi frá upphafi gert alvarlegar athugasemdir við deiliskipulagið. Þegar það var auglýst í mars á síðasta ári sendu þeir inn athugasemd í átta liðum. Þeir bentu meðal annars á að hvergi væri gert ráð fyrir því hvernig fráveitumálum yrði háttað og að rannsóknir á áhrifum framkvæmdanna á lífríkið væru ófullnægjandi.

Í kæru sinni segja landeigendurnir að fyrirhugaðar framkvæmdir hafi í för með sér verulega aukna hljóð-, ljós- og loftmengun sem rýri verðmæti fasteignar þeirra. Þær eigi eftir að raska lífríki í Lárvaðal. Það skerði hagsmuni þeirra þar sem land þeirra liggi að vaðlinum.

Lárvaðall sé á verndarsvæði Breiðafjarðar, þar sé mikið af bleikju og bleikjuseiði og vaðallinn hafi verið notaður við laxeldi. Hann sé mikilvægt uppeldissvæði fyrir laxfiska.

Þeir telja að fyrirhuguð hótelbygging hafi í för með sér umtalsverða sjónmengun. Byggingarmagn sé umtalsvert eða 5.500 fermetrar ofanjarðar og gert ráð fyrir að hótelbyggingin sjálf verði allt að 22,5 metrar á hæð. Þá hafi ekki farið fram fullnægjandi rannsókn á fornleifum og fornum kirkjugarði sem gögn bendi til að sé í landi Skerðingsstaða.

Heimild: Ruv.is