Home Fréttir Í fréttum Skattakóngur kaupir á 416 milljónir

Skattakóngur kaupir á 416 milljónir

278
0
Ljósmynd: Aðsend mynd

Pétur Björnsson, einn af skattakóngum ársins 2020, og Margrét Þorvaldsdóttir, eiginkona hans, hafa gengið frá kaupum á þakíbúð í Vesturbæ fyrir 416 milljónir.

<>

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í vikunni hefur Jóhann G. Jóhannsson, einn stofnenda og eigenda Aztiq, fest kaup á tveimur íbúðum í nýbyggingu í Ánanaustum fyrir 485 milljónir króna. Önnur íbúðin er þakíbúð.

Tvær þakíbúðir eru á 7. hæð hússins sem nú rís í Ánanaustum 1-3 og hefur einnig verið gengið frá sölu á hinni íbúðinni. Kaupendurnir eru hjónin Margrét Þorvaldsdóttir og Pétur Björnsson. Pétur var í öðru sæti á lista Stundarinnar yfir skattakónga Reykjavíkur og þriðja sæti heildarlistans vegna ársins 2020.

Í viðtali sem Stundin tók við Pétur í tilefni þess kom fram að hann hafi selt hlut sinn í Ísfelli ehf., fyrirtæki sem hann stofnaði ásamt þremur öðrum árið 1992. Hann er þó enn stjórnarformaður félagsins. Það er í dag að mestu í eigu norska fyrirtækisins Selstad Holding.

Kaupverð þakíbúðarinnar nam 416 milljónum króna og er afhending íbúðarinnar áætluð í ágúst á næsta ári. Íbúðin er 278 fermetrar og nemur fermetraverð hennar því tæplega einni og hálfri milljón króna.

Íbúð þeirra hjóna er fjögurra herbergja. Bæði svefnherbergi eru með sér baðherbergi og hjónaherbergið sér fataherbergi. Á íbúðinni eru þrennar svalir. Stærstu svalirnar eru tæplega 43 fermetrar en hinar eru tæplega 21 fermetri og 17 fermetrar. Að sama skapi fylgja eigninni tvö stæði í bílakjallara.

Heimild: Vb.is